Tuesday, October 13, 2009

Þversögn dagsins

„Þetta var til "heimabrúks" svo notuð séu orð Steingríms J. Sigfússonar, sem telur að æfðir stjórnmálamenn meini ekkert sem þeir segja við sína kjósendur.“
Leiðari Moggans 12. október.


„Stjórnarsáttmálar eru óskalistar, þeir eru friðþægingarplögg fyrir fylgjendur, sem trúðu í einlægni kosningaloforðunum, og þeir eru einnig málamiðlunaryfirlýsingar um þau tvö til þrjú mál sem stjórnarflokkana greindi mest á um í nýliðinni kosningabaráttu. Málefnasamningar hafa því dálitla þýðingu í upphafi kjörtímabils, en eftir það er sjaldan litið í þá.“
Leiðari Moggans 5. október.

Tuesday, September 08, 2009

Reynir og nafnleysingjarnir (eða Streisandkornsáhrifin)

Sandkornshöfundur DV gerir sér mat úr bloggfærslu Björgvins G. Sigurðssonar alþingismanns um nafnlaust níð á netinu. Þykir höfundi sandkornsins Björgvin hafa gengisfallið við skrif hans og uppskorið svonefnd Streisand-áhrif, það er vakið athygli á ómerkilegu slúðri sem annars hefði farið fyrir ofan garð og neðan.

“Þykir sýnt að Björgvin hafi ekki aðgang að góðum ráðgjöfum í almannatengslum sem örugglega hefðu sagt honum að halda kyrru fyrir í stað þess að berjast við vindmyllur,” skrifar sandkornsritari. “Þá þykir ekki trúverðugt að Björgvin skuli ætla að beita sér af alefli fyrir löggjöf til að koma böndum á nafnleysingja.”

Sandkornsritarinn hefði ef til vill mátt setja málið í sögulegt samhengi því Björgvin G. Sigurðsson er engan veginn sá fyrsti sem vill skera upp herör gegn orðníðingum sem vega úr launsátri. Reynir Traustason, núverandi ritstjóri DV, vílaði til dæmis ekki fyrir sér að “berjast við vindmyllur” í ársbyrjun 2006, þegar hann fór í það sem DV kallaði þá “krossferð” gegn nafnleysingjunum á málefnin.com, sem þá voru upp á sitt besta enda Eyjan ekki komin til sögunnar.

Og hvaða viðbrögð skyldi Reynir hafa fengið frá nafnleysingjunum? “Þessi orð Reynis eru besta auglýsing sem vefurinn gat fengið," skrifaði einhver sem kallaði sig Moggatetur. "Hann gerði okkur mikinn greiða, ég segi haldu áfram á sömu braut Reynir.”

Þessu hefði ég ekki munað eftir ef það væri ekki fyrir sandkorn DV. Ætli megi þá ekki kalla þetta Streisandkornsáhrif.

Monday, September 07, 2009

Egill og nafnleysingjarnir

Egill Helgason er í fararbroddi þeirra sem hafa tekið upp þykkjuna fyrir þá sem skrifa athugasemdir á netið undir dulnefni. Agli finnst sú umræða sem spannst í athugasemdakerfi Eyjunnar í kjölfar hrunsins hafa verið frjó. Hann kveðst þó ávallt hafa verið duglegur við að henda versta óhróðrinum út, en margt sem fær að standa er þó ansi mikill viðbjóður. Nú íhugar Egill hins vegar að loka fyrir ummælakerfið hjá sér því honum finnst umræðan stöðnuð og geld. Meira að segja hann er búinn að fá nóg.

Um helgina tók ég saman grein Í Fréttablaðinu þar sem reifuð voru nokkur álitamál um nafnlaus skrif á netið. Í kjölfarið skrifaði Björgvin G. Sigurðsson grein um óhróður sem hann hefur þurft að sæta á netinu. Þá pakkar Egill í vörn.

Agli finnst söguburðurinn um Björgvin ömurlegur en gerir engu að síður lítið úr honum: “En ég verð að viðurkenna að ég vissi ekki að þessi vefur er til fyrr en í dag, sjálfsagt hefði ég ekki heyrt söguna nema vegna þess að Björgvin færði þetta í tal.”
Svo kemur Egill með þá skýringu að umræðan um nafnlaust níð helgist af því að “hrunverjar eru að snúast til varnar, þeir hafa fundið viðspyrnu, hún er sú að umræðan á netinu sé svo hroðaleg”.

Gott og vel. En hvernig bregst Egill við þegar nafnlausar athugasemdir eða rógur beinist að honum? Í október 2004 bregst sjónvarpsmaðurinn til dæmis við athugasemdum Víkverja:
“Víkverji og Staksteinar í Morgunblaðinu eru hérumbil eina fyrirbærið sem stundar þann ósið að skrifa nafnlaust í fjölmiðla. Fyrirbæri, segi ég, því ekki veit ég hvort þarna að baki dylst einstaklingur, klúbbur manna eða hvers konar leynifélag þetta er yfirleitt. Annars bera svona nafnlaus skrif oftast vott um lydduskap - eða í besta falli lélegt sjálfsmat. Það þykir ekki par fínt að þora ekki að standa við skoðanir sínar.

Ég er reyndar fúll út í Víkverja - fyrirbærið eyðilagði fyrir mér morgunkaffið. Í pistlinum í morgun er þar fimbulfambað um sjónvarpsþáttinn minn - af hreinni óvild, finnst mér - og því haldið fram að hjá mér sé alltaf sama fólkið. Ég hef svosem heyrt þennan söng áður.
En ég fór að telja. Ég er búinn með sex þætti í vetur. Í þá hafa komið hvorki meira né minna en 57 manns, en aðeins tveir gestanna hafa komið tvívegis. Þetta eru að meðaltali næstum 10 manns í hverjum þætti. Í þessum hópi eru þónokkrir útlendingar sem álpuðust til Íslands og eru sannarlega ekki fastagestir hjá mér. Í gær var ég með enn einn þátttinn og þar kom meðal annarra fólk sem hefur aldrei eða sárasjaldan komið í sjónvarpið til mín.

Menn ættu aðeins að kynna sér málin aðeins áður en þeir sletta fram svona fullyrðingum. Líka þeir sem þora ekki að koma fram undir nafni." (Feitletranir mínar.)

Þegar Óli Sindri fór hamförum undir dulnefninu Mengella beindi hann oftar en ekki spjótum sínum að Agli. Egill skrifaði í október 2007:
“Hann er kannski vel skrifandi þessi náungi, en hann er rotþró íslenskra bloggheima. Það þarf ansi mikið til að láta henda sér út af Barnalandi. [Sem heitir nú er.is, vefurinn þar sem umræðan um Björgvin G. Sigurðsson grasseraði og Egill kvaðst aldrei hafa heyrt um.]
Og byrja svo að ljúga upp á fólk út í bæ að það sé höfundar bloggsins – kannski finnst viðkomandi það skemmtilegur hlutverkaleikur en ég sé samt ekki fyndnina.
Annars á maður að vera duglegri að setja bara á ignore þegar nafnleysingjar eru annars vegar. Yfirleitt sýnist manni að þeir sem vega úr launsátri netinu gangi ekki heilir til skógar.

Þegar Óli Sindri, höfundur Mengellu, kom fram undir nafni var skrifuð um það frétt í Fréttablaðinu. Þá skrifaði Egill:
“Fréttablaðið birtir mynd af Mengella. Þetta er eiginlega staðalímynd hins nafnlausa netverja.
Maðurinn er svo fælinn að það er eins og hann sé að reyna að komast út úr ljósmyndinni, velur sér reyndar skrýtna leið, ekki til hliðanna, heldur leitar hann undankomu aftast í myndinni – líkt og að hann ætli að láta sig hverfa út um afturendann á myndinni.
En þegar hann skrifar á netið bresta allar hömlur.

Þetta er nú dálítill tvískinnungur.

Tuesday, May 05, 2009

Vandlifað

Af Vísi: "Birkir Jón Jónsson. varaformaður Framsóknarflokksins segir það ekki lofa góðu ef ríkisstjórnin geti ekki komið sér saman um Evrópumálin og ætli sér þess í stað að leggja spurninguna um hvort hefja eigi aðildarviðræður í dóm Alþingis..."

Hefði fréttin snúist um að Vg og Samfylking hefðu komið sér saman um að sækja um aðild að ESB, myndi Birkir Jón án efa væla yfir þeirri ósvinnu að þetta mikilvæga mál væri ekki lagt fyrir þingið áður en endanleg ákvörðun yrði tekin.

Wednesday, April 29, 2009

Hárþing

Í Fréttablaðinu í dag segir að aldrei hafi fleiri sköllóttir verið á þingi, alls sjö. Að óathuguðu máli ætla ég ekki að fjölyrða um hvort um met sé að ræða. Hins vegar verður að teljast líklegt að sköllóttum þingmönnum eigi eftir að fjölga á kjörtímabilinu. Mér dettur að minnsta kosti þrír þingmenn í hug sem eru aðeins hársbreidd frá því að komast í hópinn.

Tuesday, April 28, 2009

Þór á þingi

Mér skilst að Þór Saari, nýbakaður þingmaður Borgarahreyfingarinnar, sé af finnskum ættum. Ætli það sé þess vegna sem hann vill Lappa upp á Alþingi?

Monday, April 27, 2009

Uppruni orðanna

Vísir upplýsir að konan sem gekk örna sinna í kjörklefanum um helgina sé hústökumaður. Það leiðir hugann að orðsifjafræðinni. Í ensk-íslenskri orðabók má meðal annars finna þessi tvö orð:

squat: sitja á hækjum sér.

squatter: e-r sem leggur undir sig landareign eða húsnæði.

Eru tengsl þarna á milli? Ætli hugtakið "squatter" sé dregið af því að þeir sem leggja sig undir hús séu iðulega fólk af því sauðahúsi sem sest á hækjur sér og gerir stykki sín á almannafæri?