Thursday, October 23, 2008

Auðmagnið og krúttin

Í mars 2005 var ég staddur á Ísafirði, á blaðamannafundi fyrir rokkhátíðina Aldrei fór ég suður, sem þá var haldin í annað sinn. Eftir fundinn rakst ég Mugison og Ragnar Kjartansson á Langa Manga og úr því varð helgarviðtal sem birtist í Fréttablaðinu 19. mars. Það er ástæða að rifja upp seinni hluta viðtalsins:

Að hafa efni á prinsippum
"Það kemur óneitanlega spánskt fyrir sjónir að sjá Örn [Elías - Mugison] og Ragnar spila lagið um gúanóstelpuna umkringda lógóum frá Símanum, Flugfélagi Íslands og Íslandsbanka, styrktaraðilum hátíðarinnar.
"Jú, það er kannski rétt," kinkar Örn kolli, "en þetta gerir okkur kleift að gera svo mikið fyrir svo marga, sem er auðvitað bara flott." Ragnar segir að það sé til marks um tíðarandann að fyrirtæki séu orðin miklu opnari fyrir því að setja peninga í listir, þar á meðal tónlist sem hvarvetna annars staðar þætti vera á jaðrinum. "Það eru risin upp ofurveldi sem eiga drungalega mikið af peningum og komnir til sögunnar svona velunnarar listanna í anda Medici-ættarinnar í Flórens. Þetta er auðvitað gott að mörgu leyti, en verður kannski til þess að maður er feimnari við að vera með stæla. Ég sem síður reiðilegt baráttulag ef það er hætta á að það komi illa við fyrirtækið sem styrkir mig."
Örn segir að staðan sé einfaldlega sú að maður verði að hafa efni á að hafa prinsipp. "Ég seldi lag í auglýsingu og var virkilega komplexaður yfir því. Ég hitti mann sem sagði mér að það hefði eyðilagt lagið fyrir sér að heyra það í jólaauglýsingu frá einhverjum banka. Þetta hafi verið uppáhalds ríðulagið sitt en nú gat hann ekki riðið við það án þess að hugsa um yfirdráttinn," segir Örn og hlær. "En án gríns, þá eyðileggur maður vissulega ákveðinn anda í laginu með þessu, en á móti kemur að ég átti fyrir salti í grautinn í tvo mánuði og notaði þann tíma til að taka upp tónlistina fyrir Næsland. Það er búið að innræta manni að það sé ekki flott að selja tónlistina sína í auglýsingar, en þetta er líka spurning um hvort maður þurfi að hækka yfirdráttinn eða ekki. Maður þarf að hafa efni á að hafa svona prinsipp."
Ragnar bendir á muninn á myndlist og tónlist í þessum efnum. "Þegar maður selur myndlistarverk stendur það enn sem sjálfstætt verk, en í músík er verið að kaupa lag inn í eitthvað annað sem getur auðvitað gjörbreytt því."

Klíkuskapurinn hættur að vera vandræðalegur
Erni finnst að feitir ríkisstyrkir til einstakra tónlistarmanna eigi ekki að þó vera valkostur fyrir tónlistarmenn. "Hverjir eru það sem myndu útdeila slíkum styrkjum? Það er alltaf eitthvað klíkumynstur í gangi á Íslandi og það er fyrir löngu hætt að vera vandræðalegt. Ég held að enginn geti sagst aldrei hafa fengið neitt út á það að þekkja einhvern. Þetta er orðið partur af þjóðarvitundinni og einu skiptin sem maður kippir sér upp við þetta er þegar maður sér stjórnmálamenn redda einhverjum úr klíkunni sinni vinnu. Hættan er hins vegar sú að þetta taki allt pönkið úr tónlistinni."
Ragnar tekur undir þetta og segir að ef til vill megi rekja það til klíkumeðvirkni hins fámenna Íslands að það eru fá pólitísk bönd starfandi. "Mér finnst ótrúlega virðingarvert að gera pólitíska tónlist en ég skil að menn séu hræddir við að vera með stæla ef þeir ætla að sækja um styrk í tónlistarsjóð menntamálaráðuneytisins. Mér fannst rappið lofa miklu sem vettvangur fyrir pólitíska tónlist en það hefur snúist upp í það að menn gera ekkert nema að kalla hver annan hálfvita." "Mér finnst að yrkisefnin mættu vera pólitískari," samsinnir Örn. "Nóg geta tónlistarmenn baktalað hvorn annan."
Ragnari finnst að ríkið eigi hins vegar að styrkja tónlistargeirann. "Það er enginn skortur á íþróttamannvirkjum, en ef þú ert í tónlist er það stöðugt basl að finna æfingahúsnæði." Örn bætir því við að forgangsröð stjórnvalda í þessum efnum sé fáránleg. "Ég tók þátt í þessu Parísarrugli á vegum menntamálaráðuneytisins. Þar voru peningarnir ekki sparaðir, en þetta reyndist vera allsherjar brandari. Tónlistarmenn mættu á eigin forsendum til að spila fyrir embættismenn sem var boðið en ekki fólk sem kom gagngert til að hlusta á tónlistina. Tónlistin var algjört aukaatriði."
Ragnar segir það oft hjákátlegt að fylgjast með stjórnmálamönnum, sem hafa lítið vit á hvað er að gerast í íslensku tónlistarlífi, hampa tónlistarmönnum á tyllidögum. "Einn ráðherra sem lætur þessi mál sig varða hélt þar til fyrir skömmu að Smekkleysa væri hljómsveit!"

Tommy Lee í fósturstellingu
Ragnar og Örn hafa báðir verið kenndir við "krúttkynslóðina" svokölluðu. Þeir segja að þetta helgist af ákveðinni þörf hjá fólki til að stimpla allt. "Öddi er orðinn ofurmannlegi og vinalegi gaurinn og við í Trabant erum flippuðu týpurnar sem spiluðu á Bessastöðum og erum geðveikt klikkaðir. En þetta er auðvitað rulla sem við höfum leikið okkur með; Trabant eru óttalegir sirkusapar, en hafa fulla innistæðu fyrir tónlistinni sinni."
Örn viðurkennir að hann sé jafnvel farinn að gangast upp í hlutverki einlæga rokkarans. "Ég stóð í röð fyrir utan Kaffibarinn um daginn og dyravörðurinn spurði hvort ég vildi ekki koma fram fyrir. Mér leist ekkert illa á það en fór fljótlega að hugsa að ég ætti bara að standa í röðinni eins og annað fólk. Ég held að það hafi verið ofurmeðvitund og hræsni sem réð þessu frekar en viljinn til að vera alþýðuhetja og maður fólksins."
"Ég held að þetta með krúttkynslóðina sé tilraun til að svipta mann kúlinu," segir Ragnar. "Það er verið að reyna að draga úr okkur tennurnar og gera okkur meinlaus. Ég skil þetta samt ekki alveg, það var einhver grein í DV um daginn þar sem furðulegasta fólk var kallað krútt, til dæmis Urður í Gusgus, einhver mesti sóðakjaftur sem ég þekki. Þetta er ágætur brandari og hvað getur maður svo sem gert. Ég man reyndar eftir viðtali við Tommy Lee, úr Mötley Crüe, þar sem hann sagðist alltaf leggjast í fósturstellinguna þegar hann hlustaði á Sigur Rós. Ef það er eitthvað sem má kalla sigur krúttkynslóðarinnar þá er það Tommy Lee í fósturstellingunni."