Monday, December 15, 2008

Hinn fastmótaða hreinskiptni RÚV -útúrdúr

Reynir Traustason er í klandri, á þvi leikur enginn vafi. Ég velti hins vegar fyrir mér einu í sambandi við ákvörðun Kastljóssins að spila upptökuna af samtali Jóns Bjarka og Reynis. Hún virðist nefnilega ganga þvert á yfirlýsta stefnu RÚV, stefnu sem Páll Magnússon útvarpsstjóri áréttaði fyrir skömmu síðan.

Reynir kveðst vera að "kanna réttarstöðu sína" og undrast að RÚV hafi spilað upptökuna; hún hafi ekki gerð með vitund Reynis og hann talið sig vera að ræða við Jón Bjarka í trúnaði. Þórhallur Gunnarsson (sem gerði heimildarmyndina Skuggabörn ásamt Reyni) segir að samtalið hafi átt brýnt erindi til almennings og því hafi verið ákveðið að spila hana.

Það er síður en svo óþekkt að fjölmiðlar spili upptökur sem hafa náðst án vitundar þess sem er á henni og gegn vilja viðkomandi; Kompás grípur til dæmis oft til þess. Þetta er hins vegar umdeild aðferð og ég man hins vegar ekki í fljótu bragði eftir að hafa séð slík vinnubrögð ástunduð á RÚV, enda stutt síðan útvarpsstjóri hélt því fram að það myndi stefna trúverðugleika stofnunarinnar í voða.

Ekki er langt síðan G. Pétur Matthíasson birti á bloggsíðu sinni upptökur af Geir H. Haarde í ólundarkasti. Þar kom greinilega fram að Geir taldi sig ekki vera í viðtali og virtist telja að slökkt hefði verið á myndavélum. G. Pétur ákvað þó að birta myndskeiðið að ígrunduðu máli, þar sem hann taldi að það ætti það brýnt erindi til almennings. Viðbrögð Páls Magnússonar voru á þá leið að skipa Pétri að biðjast afsökunar og skila spólunum með upptökunum, ellegar myndu lögfræðingar RÚV blanda sér í málið. Páll sagði að Pétri væri óheimilt að nota efni frá RÚV með þessum hætti og var ekki síður ósáttur við að fyrrverandi fréttamaður RÚV hefði notað upptökur sem ekki var ætlað að kæmu fyrir augu almennings; hann sagði að þetta væri álitshnekkir fyrir stofnunina og hefði “með að gera þau heilindi og hreinskiptni sem Ríkisútvarpið þarf að sýna í samskiptum við fólk og getur stefnt í voða því trausti og trúverðugleika sem frétta – og dagskrárgerðarmenn RÚV þurfa að njóta í samfélaginu, - og þannig torveldað okkar fólki að rækja skyldustörf sín.

Orð útvarpsstjóra verða ekki skilin öðruvisi en að það sé opinber stefna RÚV að fréttamenn færi sér ekki í nyt upplýsingar og/eða upptökur sem hefur verið aflað án vitundar eða gegn vilja þess sem lét þær af hendi. Slíkt stefni í voða því trausti og trúverðugleika sem fréttamenn RÚV verði að njóta. Kastljós virðist vera á öðru máli en Páll. Nema RÚV hafi enga fastmótaða stefnu í þessum efnum, en útvarpsstjóri þykist bara hafa það þegar það hentar.

Þetta er vissulega útúrdúr frá aðaltriði málsins og bera að ræða sem slíkan - en engu að síður álitamál sem vert er að velta fyrir sér.