Monday, October 06, 2008

Fólk með einhver áform...

Ljóð segja satt. Að minnsta kosti þegar vel tekst til. Tökum dæmi:

Það er sem átti að vera
þægileg lífslygi
reyndist alveg satt
og frekar óþægilegt


Ég kolféll fyrir þessum ljóðlínum Þórarins Eldjárns, þegar ég las Fjöllin verða að duga í fyrra; finnst þær fanga þann tíðaranda sem ég upplifi nær fullkomlega.

Að sama skapi er Síðasta kvöldið eftir Sigurð Pálsson afskaplega viðeigandi núna, réttum tuttugu árum eftir að það kom fyrst út:

Æ þessar frómu óskir
Fráleitu vonir
Að allt stæði kyrrt
Einmitt þetta kvöld
Að hugurinn stæði kyrr

Utan við hótelgluggann
Þung umferð við ferhyrnt torg
Fólk á svonefndum ferli
Og stjákli
Og bíðandi
Fólk með sig og sína
Fólk með einhver áform
Að því er virtist
Fólk...

Í sjónvarpinu knattspyrna
Sögur og fólk í framhaldsflokkum
Mannkynssagan í framvindu
Í fréttatímum

...og hann hafði vonað
að allt stæði kyrrt
einmitt þetta kvöld...

Æ þessar frómu
Hinstu óskir
Fráleitu vonir
Að lífið gæfist upp
Fyrirhafnarlaust


Ætli Geir lesi ljóð?