Sunday, August 20, 2006

Börn náttúrunnar

Undirbúningur fyrir tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoni gekk vonum framar, enda kom á daginn að það var of gott til að vera satt. Mikil var gleði mín þegar ég kláraði tíu kílómetrana í fyrsta sinn - þar til daginn eftir þegar ég gat ekki stigið í vinstri fótinn. Tveimur dögum síðar án tilfinninnanlegs bata fór ég upp á heilsugæslustöð í leit að linun. Þar tók á móti mér læknanemi, sjálfsagt yngri en ég, og tjáði mér, eftir grunsamlega litlar rannsóknir, að líklega væri ég með sködduð liðbönd. Hann kenndi lélegum skóm um og sagði að líklega hefði ég bara verið að stappa á fótunum á mér á malbikinu. Af samhenginu réð ég að það er ekki hollt. Á alltént að taka því rólega á næstunni og fara í göngugreiningu við tækifæri.

Ég er í mánaðarlöngu fríi vestur á fjörðum og eðli málsins samkvæmt þokast fótaferðatími smám saman nær hádegi. Þrátt fyrir meðvirkni í kvöldvökum hefur Sigurður Elí tekið að sér að vera samviska mín í þessum efnum og kemur sængum og koddum úr seilingarfjarlægð, yfirleitt ekki síðar en klukkan tíu á morgnana. Ef það liggur vel á honum fæ ég að dorma til ellefu.

Þar sem við erum úti á landi lifum við nær eingöngu af landsins gæðum; tvær bleikjur, þorskur og ótaldir ufsar hafa safnast til feðra sinna fyrir tilstilli Sigga, sem breytist í mikla fiskætu ef hann hefur sjálfur dregið aflann að landi. Næst á dagskrá er að láta hann rækta eigin kartöflur.

Í fyrradag fórum við í berjamó. Sólskin og stafalogn (sjaldgæft föruneyti á þessum slóðum þar sem innlögnin stíar þeim yfirleitt í sundur). Týndum tæpan líter af krækiberjum í hvítt hvers-dags-ís-box. Helvítis frjókornaofnæmið setti strik í reikninginn með tilheyrandi hnerraköstum, sem byrjuðu strax við brúna bakvið hús og rénuðu ekki fyrr en við rafstöð . En það var þess virði fyrir skyr með berjum.