Tuesday, October 07, 2008

Karl í pels

Ró minni var raskað á dögunum. Ég sat í góðu næði á kaffihúsi í miðborginni þegar framhjá gekk maður úr tiltölulega nýrri stétt íslenskra broddborgara, klæddur í pels. Til er að minnsta kosti einn óbrigðull mælikvarði á hvenær menn hafa eignast of mikla peninga: karl í pels.

Þetta stílbrot þurfti í sjálfu sér ekki að koma mikið á óvart. Síaukið ríkidæmi undanfarið á sér ekki fordæmi hér á landi og af glans- og slúðurblöðunum íslensku að dæma finnst hinum ríku fátt flottara en að klæðast jakkafötum sem líta út eins og brjóstsykur. Það er að minnsta kosti auðvelt að hrapa að þeirri ályktun að brogaður smekkur sé einn af fylgifiskum þess að vera ríkur.

Fjölmörg teikn bentu til hvert stefndi. Einhver borgaði milljónir króna fyrir að lesa veðurfréttir á NFS (sú spá hefur enn ekki verið flutt svo ég viti til) og annar greiddi tugi milljóna fyrir ómálað málverk. Það var því aðeins tímaspursmál hvenær karlar skrýddir minkaskinni færu að spígspora um Laugaveginn.

Í bjartsýniskasti lét ég hins vegar öll aðvörunarmerki sem vind um eyru þjóta, rýndi í efnahagshorfur í gegnum tískugleraugun og leitaði logandi ljósi að dæmum til að styrkja málstað minn. Með því að hámarka – jafnvel ýkja – líkur á verðbólguskoti, samdrætti og ofhitnun í hagkerfinu tókst mér smám saman að telja mér trú um að íslenskir karlar myndu ekki byrja að ganga í pelsum fyrr en í fyrsta lagi árið 2010, jafnvel 2011 ef heppnin væri með mér.

Þar sem ég stóð andspænis pelsklædda auðkýfingnum leið mér eins og ég hefði fengið blauta tusku í andlitið. Það hafði gerst. Öskju Pandóru hafði verið lokið upp og ekki einu sinni vonin eftir á botninum. Tískan vinnur sig niður á við og það er ekki lengur spurning um hvort heldur hvenær óbreyttir alþýðumenn verða álitnir umrenningar nema þeir séu líka í frakka gerðum úr mink, ref, kanínu eða safala.

Ég held þó enn í vonina um að þurfa ekki að heimsækja feldskerann alveg strax. Á hinn bóginn er þetta kannski bara spurning um að ganga alla leið. Kaupa snekkju og láta brenna sig í pelsinum að víkingasið þegar þetta er allt saman búið.

Birtist í Fréttablaðinu 18. júní 2006.