Monday, August 21, 2006

Selárdalur og Miami Vice

Við Sigurður Elí vorum fjarri góðu gamni á Menningarnótt en þar sem við vildum ekki vera neinir eftirbátar höfuðborgarbúa, fórum við í Selárdal í Arnarfirði og virtum fyrir okkur listaverk Samúels Jónssonar. Það er langt síðan ég kom þangað síðast og ég var eiginlega búinn að gleyma því hversu stutt það er að fara þangað; ekki nema 25 kílómetrar frá Bíldudal. Þó má ekki láta vegalengdina blekkja sig því þótt leiðin sé stutt er hún leiðinleg yfirferðar og tímafrek.
Verkin hafa verið klössuð upp og það er af sem áður var; ljónin hafa tekið lit, komin með veiðihár og næsta sumar stendur til að þau fái vatn í munninn.

Við ókum fram hjá nýupptekinni gröf Hrings vígamanns, sem var fluttur í gifsi suður til Reykjavíkur fyrir helgi. Mér finnst það lýsa andleysi og doða sýslumannsembættisins á Patreksfirði að rannsaka þetta ekki sem óleysta morðgátu.

Ókum í bæinn í gær, degi á undan áætlun. Siggi Elí undirbýr sig fyrir skólasetningu, ég fyrir að mæta aftur í vinnu.

Við Sveinn fórum í bíó gær - mig langaði á þessa en Sveinn er með snákafóbíu þannig þessi varð fyrir valinu. Þetta er fín mynd, það má kannski lýsa henni sem greindarlegri útgáfu af Bad Boys. Þeir sem höfðu gaman af henni og framhaldinu ættu að forðast Miami Vice. Og öfugt.