Tuesday, October 14, 2008

Elskulegir ljúflingar og alvörumenn

Sumir gera því skóna að lofrulla Kjartans Gunnarssonar um Davíð Oddsson í Morgunblaðinu hafi í raun verið hið eitraðasta háð. Ég held ekki, drápan hljómaði án efa sætlega í eyrum Davíðs.

Í bókinni Forsætisráðherrar Íslands skrifar Davíð Oddsson um Hannes Hafstein. Þar stendur meðal annars: "Hannes Hafstein var geðríkur, karlmannlegur ljúflingur ... jafnframt elskulegur fjörkálfur, fullur af húmor, lífsgleði og leik ... Og hann var viðkvæmur og samúðarfullur þátttakandi í annarra harmi ekki síður en sínum eigin."

Jakob F. Ásgeirsson var að sama skapi fengið að skrifa um Ólaf Thors. Þar stendur meðal annars: "Ólafur var karlmenni í lund og stór í sniðum. Hann var alvörumaður undir niðri en frægur fyrir gáska og hnyttin tilsvör. Hann þurfti oft að fá útrás fyrir sitt mikla skap en var fljótur að sættast. Sjálfur erfði hann ekki misgjörðir við menn. Hann skildi mannlegan breiskleika öðrum fremur. Hann var frjálslegur og djarfmannlegur í framgöngu en jafnframt hlýr og alúðlegur."

Svona skrifa sjálfstæðismenn af gamla skólanum einfaldlega um þá sem þeir hafa mætur á, fullkomlega blindir á mörk lofs og oflofs.