Tuesday, August 22, 2006

Peugot til sölu

Ég ætla að selja Peugot-inn. Hef þegar fengið tvö tilboð frá Hringrás og Vöku. Bæði hljóða upp á fimmtán þúsund krónur og því duttlungum háð hver hreppir hnossið. Ég hallast heldur að Hringrás því þangað er styttra.

Grái Peugot-inn er sannarlega ekki falleg bifreið, né sérstaklega þægileg. Stærsti gallinn er sjálfsagt miðstöðin, sem lekur eitruðum loftegundum úr pústkerfinu inn í bílinn. Það er mér sagt að sé óhollt. Hann hefur hins vegar þjónað sínu hlutverki í rúmt ár, með hléum vegna bilana, en nú er mál að linni.

Í fyrra komst sá kvittur á kreik að auðkýfingur væri í röðum blaðamanna 365. DV sendi vitaskuld sína bestu syni út af örkinni til að hafa upp á milljónamæringnum og einhverra hluta vegna beindist grunurinn að mér. Kristján Hjálmarsson, sonur Framsóknarflokksins, lagði reyndar sitt af mörkum með því að auglýsa mig sem "kvótaerfingja að vestan". Sjálfsagt hefði ég endað á forsíðu blaðsins undir fjálglegri fyrirögn, hefðu DV-ingar ekki séð mig renna í hlað á Peugot-inum, því milljónamæringur hefði ekki látið sjá sig dauðan í þessum bíl.