Wednesday, August 30, 2006

Hneisa

Sjálfstæðisflokkurinn tók af öll tvímæli í dag að hann er öðrum fremri í þeirri list að redda vinum sínum. Héðan í frá er Árni Johnsen með óflekkað mannorð. Ég legg til að eftirfarandi klausu verði bætt við lög og reglur um kjörgengi: Undanþegnir eru þeir sem setið hafa á þingi og langar þangað aftur.
Skiptir virkilega engu máli að það eru ekki nema þrú ár - innan við kjörtímabil - liðin síðan Árni var fundinn sekur um fjárdrátt, mútuþægni og umboðssvik í opinberu starfi? Jújú, auðvitað hefur hann "greitt sína sekt við samfélagið" - einsog stundum er sagt - með fangavist sinni. En ef hver sá sem hefur afplánað refsingu á að halda kjörgengi sínu, ættu lögin einfaldlega að kveða á um það. Það gera þau ekki.
Það glórulausasta við þetta mál allt saman er að Árni braut af sér í skjóli þess að hann gegndi opinberu embætti. Að hreinsa sakavottorð hans í þeim eina tilgangi að gefa honum tækifæri til að gegna því embætti aftur, er ömurlegt.

Nú er bara að bíða spenntur og sjá hvort einhver réttlátur flokksfélagi Árna leggi ekki fram frumvarp sem miðar að því að lengja ævi hans um þann tíma sem hann þurfti að dúsa inni.