Tuesday, February 24, 2009

Vafasamur heiður?

Blaðamannaverðlaun Íslands voru afhent um síðustu helgi. Verðlaun voru veitt í þremur flokkum. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir hlaut blaðamannaverðlaun ársins fyrir störf sín á mbl.is; umfjöllun Ragnars Axelssonar og Önundar Páls Ragnarssonar um virkjunarkosti á Íslandi var valin besta umfjöllun ársins; og verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins féllu Sigurjóni M. Egilssyni á Mannlífi í té.
Sigurvegurunum óska ég til hamingju, þeir eru án efa vel að heiðrinum komnir.

Eitt hnaut ég hins vegar um sem ég tel ástæðu til að gera athugasemd við, það er umsögn dómnefndar um rannsóknarblaðamennsku ársins. Hún er á þessa leið:

Rannsóknarblaðamennska ársins 2008
Sigurjón M. Egilsson, Mannlífi og Bylgjunni, fyrir vandaðar og ítarlegar greinar um íslenskt efnahagsástand í Mannlífi, þar sem mál voru krufin með ítarlegri hætti en títt er í íslenskum fjölmiðlum. Samhliða stýrði Sigurjón útvarsþætti á Bylgjunni, þar sem íslensk þjóðmál voru í brennidepli.

Umfjöllun Sigurjóns M. Egilssonar í Mannlífi um íslensk efnahagsmál vakti talsverða athygli strax á fyrri hluta ársins 2008 fyrir þær grundvallarspurningar sem þar voru rannsakaðar og leitað svara við, m.a. varðandi bankakerfið og peningamálastefnu stjórnvalda. Umfjöllunin er þó ekki síður athyglisverð í ljósi þess sem síðar gerðist, enda var þar með ítarlegum og gagnrýnum hætti farið inn á fjölmarga þætti sem ótvírætt eru mikilvægir orsakavaldar [sic] í bankahruninu mikla. Í greinaflokkum sínum kafaði Sigurjón ofan í málin og dró fram sjónarmið fjölda fólks, stjórnmálamanna, sérfræðinga og hagsmunaaðila og greindi hver áhrifin voru af efnahags- og peningastefnunni og hverjar hættur voru yfirvofandi. Til viðbótar skrifum um þessi mál í Mannlífi tók Sigurjón ýmsa þætti þessarar umfjöllunar upp á vettvangi útvarpsþáttarins Sprengisands á Bylgjunni, sem hann hefur séð um.“

Takið eftir að í umsögninni er hamrað á því hveru ítarlegar greinar Sigurjóns voru, í þeim hafi verið leitast við að svara grundvallarspurningum, áhrif af efnahags- og peningastefnunni greind og þar fram eftir götunum. Aftur á móti er ekki einu orði vikið að því hvað þessar greinar leiddu í ljós. Fann dómnefndin virkilega ekki eitt einasta dæmi um fréttnæmar niðurstöður í „rannsóknarblaðamennsku ársins“? Getur það verið?

Rökstuðning dómnefndar, eins og hann er settur fram, má skilja sem svo að hún telji lítið púður hafa verið í rannsóknarblaðamennsku ársins; hún hafi verið umfangsmikil en litlu skilað. Ef einhver annar en Blaðamannafélag Íslands stæði að þessum verðlaunum mætti túlka umsögnina sem beinskeytta (réttmæta?) gagnrýni á íslenska fjölmiðla. Sú held ég að sé þó ekki raunin, heldur er þetta einfaldlega dæmi um hroðvirknisleg vinnubrögð.

Dómnefndin hefur kastað til höndunum annað hvort þegar hún valdi verðlaunahafann eða þegar hún rökstuddi álit sitt. Ég vil láta sme njóta vafans og gefa mér að það hafi verið hið síðarnefnda. Mér þykir Blaðamannafélag Íslands satt best að segja sýna Sigurjóni lítinn sóma með því að veita honum verðlaun á grundvelli þeirrar moðsuðu sem rökstuðningurinn er. Handarbaksvinnubrögð af þessum toga eru heldur ekki til þess fallin að auka tiltrú á Blaðamannaverðlaunum Blaðamannafélags Íslands.