Saturday, September 02, 2006

Bjólfahrollur

Ég fór á Bjólfskviðu á fimmtudag. Um þá upplifun mátti lesa í Fréttablaðinu í gær en ég læt hana líka fljóta hér:

Deigur hnífur
Það kostaði augljóslega mikla vinnu að gera Bjólfskviðu enda hafði Gerald Butler, aðalleikari myndarinnar, á orði áður en myndin var frumsýnd í Háskólabíói að hann hefði ekki kynnst öðru eins veðravíti og meðan tökur stóðu yfir. Mesta afrekið hefði verið fólgið í því að þrátt fyrir allt hefði að endingu tekist að koma Bjólfi alla leið á hvíta tjaldið.
Butler hefur rétt fyrir sér - miðað við aðstæður var það heil­mikið afrek að koma tröllabananum Bjólfi á koppinn en fyrir annað fær Bjólfskviða lítið hrós. Fyrst má nefna að myndin ber þess augljós merki að vera gerð af van­efnum. Helsti gallinn er hins vegar hversu yfirmáta hallærisleg hún er um leið og hún vill láta taka sig alvarlega. Söguframvindan er langdregin, bardagaatriðin kauðsleg og samtölin vandræðaleg. Við leikarana er ekki að sakast, þeir hafa einfaldlega ekki úr neinu að moða. Gerald Butler er sæmilega sjarmerandi og getur sjálfsagt borið uppi vel skrifaða mynd en í Bjólfskviðu þarf hann að láta sér nægja að troða marvaðann. Fórnarlamb myndarinnar er tvímælalaust gæðaleikarinn Ingvar E. Sigurðsson í hlutverki tröllsins Grendils; á köflum er átakanlegt að horfa á hann gólandi á fjallshæð í loðnum vöðvabúningi. Allar tilraunir til að ljá persónunni - og sögunni - dýpt og mannlega hlýju falla kylliflatar.
Mögulega má markaðssetja myndina út á íslenska landslagið en á heimamann virkar náttúrusukkið yfirþyrmandi. Á framleiðslunni er ekki að sjá að rúm tuttugu ár séu liðin síðan Hrafninn flýgur var gerð og á heildina litið verður Bjólfskviða að teljast vonbrigði.