Tuesday, February 24, 2009

Eiður gegn Nirði

Eiður S. Guðnason, fyrrverandi sendiherra og áhugamaður um vandað mál, vekur athygli á þeim sóðaskap sem stafar af skítugum, tættum plastborðum á ljósastaurum milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Eiði skilst að samtökin Nýtt lýðveldi hafi komið borðunum fyrir. Hann skrifar: Sé það rétt að þessi samtök beri ábyrgð á þessum umhverfissóðaskap ættu þau að sjá sóma sinn í fjarlægja þessar plastslitrur sem nú flygsast í vindinum. Varla ætlast þau til að bæjarstarfsmenn hreinsi þetta á kostnað skattborgara, - eða hvað?

Svo skemmtilega vill til að forsprakki Nýs lýðveldis er annar áhugamaður um málvernd, sjálfur Njörður P. Njarðvík. Ólíklegt er að Njörður sitji þegjandi undir ákúrum Eiðs. Hér stefnir í ritdeilu - á gullaldarmáli.