Tuesday, September 08, 2009

Reynir og nafnleysingjarnir (eða Streisandkornsáhrifin)

Sandkornshöfundur DV gerir sér mat úr bloggfærslu Björgvins G. Sigurðssonar alþingismanns um nafnlaust níð á netinu. Þykir höfundi sandkornsins Björgvin hafa gengisfallið við skrif hans og uppskorið svonefnd Streisand-áhrif, það er vakið athygli á ómerkilegu slúðri sem annars hefði farið fyrir ofan garð og neðan.

“Þykir sýnt að Björgvin hafi ekki aðgang að góðum ráðgjöfum í almannatengslum sem örugglega hefðu sagt honum að halda kyrru fyrir í stað þess að berjast við vindmyllur,” skrifar sandkornsritari. “Þá þykir ekki trúverðugt að Björgvin skuli ætla að beita sér af alefli fyrir löggjöf til að koma böndum á nafnleysingja.”

Sandkornsritarinn hefði ef til vill mátt setja málið í sögulegt samhengi því Björgvin G. Sigurðsson er engan veginn sá fyrsti sem vill skera upp herör gegn orðníðingum sem vega úr launsátri. Reynir Traustason, núverandi ritstjóri DV, vílaði til dæmis ekki fyrir sér að “berjast við vindmyllur” í ársbyrjun 2006, þegar hann fór í það sem DV kallaði þá “krossferð” gegn nafnleysingjunum á málefnin.com, sem þá voru upp á sitt besta enda Eyjan ekki komin til sögunnar.

Og hvaða viðbrögð skyldi Reynir hafa fengið frá nafnleysingjunum? “Þessi orð Reynis eru besta auglýsing sem vefurinn gat fengið," skrifaði einhver sem kallaði sig Moggatetur. "Hann gerði okkur mikinn greiða, ég segi haldu áfram á sömu braut Reynir.”

Þessu hefði ég ekki munað eftir ef það væri ekki fyrir sandkorn DV. Ætli megi þá ekki kalla þetta Streisandkornsáhrif.