Tuesday, April 21, 2009

Bekkjarpartí

Gefum okkur að ég bjóði mig fram til formanns bekkjarfélags - segjum í 6E. Í kosningabaráttunni lofa ég því að á hverju föstudagskvöldi verði bekkjarpartí með pitsuveislu heima hjá Einari Snæ Bjarnasyni í 6J, sem eins og allir vita á vel stæða foreldra og býr í stóru húsi. Við Einar eigum sameiginlegan vin, Arnar Grétar Stefánsson í 6F, sem þykir ráðagóður og áhrifamikill og ég fullyrði við bekkjarsystkin mín að hann muni hafa milligöngu um þessi pitsupartí heima hjá Einari fyrir mína hönd. Þegar Einar í 6J fréttir af þessu verður hann fúll og skrifar á Facebook-vegginn minn að hann hafi ekki hugsað sér að halda pitsupartí heima hjá sér á hverju föstudagskvöldi og gildi þá einu sameiginlegur vinskapur okkar við Arnar í 6F. Ég geti bara haldið mín eigin bekkjarpartí.

Mín viðbrögð? Ég byrja vitaskuld á því saka Einar um dólgslega árás í minn garð áður en ég arka á fund hjá skólastjóranum og klaga hann fyrir óeðlilega íhlutun af kosningabaráttu minni.