Wednesday, March 25, 2009

Ísbjörg

Nú um mundir er sérstaklega vinsælt að markaðssetja hvers kyns menningarafurðir, ekki síst bækur, með skírskotun í atburði líðandi stundar og láta að því liggja að höfundurinn hafi séð óorðna atburði fyrir.

Í ljósi þess að ein helsta birtingarmynd efnahagshrunsins er auðvitað IceSave reikningarnir í Bretlandi - og eins og allir vita eru ljón áberandi í breska skjaldarmerkinu - kemur óneitanlega á óvart að ekki sé þegar búið að endurútgefa Ég heiti Ísbjörg - ég er ljón.

Á Bókmenntavefnum gerir Kristín Viðarsdóttir grein fyrir verkum Vigdísar Grímsdóttur. Hún skrifar meðal annars: "[Í] mörgum tilfellum eiga persónur afar erfitt með að takast á við þann veruleika sem blasir við þeim en leita þess í stað inn á við og loka sig af í skálduðum heimi sem þær telja sig hafa á valdi sínu." Þetta eigi til dæmis við um Ísbjörgu.

Hmm, hverjum fleiri en Ísbjörgu hefur fundist erfitt að takast á við þann veruleika sem blasir við þeim og lokað sig af í skálduðum heimi, til dæmis skálduðum heimi loftbóluhagkerfisins?

Fyrir vanan markaðsmann í bókabransanum væri vitaskuld leikur einn að smíða úr þessu gagnorða allegóríska túlkun, prenta afan á bókakápuna ásamt mátulega loðnu orðalagi um spádóma sem rættust og selja eins og fimm þúsund eintök, lágmark.

Langsótt? Ónei!