Thursday, March 19, 2009

Um sannleiksást Bjarna Harðarsonar

Bjarni Harðarson, bóksali og fyrrverandi þingmaður, birtir færslu á vef sínum sem snertir þann sem hér skrifar. Ég setti inn athugasemd hjá honum. Birti hana að auki hér:

Sem umsjónarmanni aðsendra greina á Fréttablaðinu finnst mér ég knúinn til að gera athugasemdir við þennan óhróður.

Á undanförnu ári hafa eftirtaldar greinar eftir Bjarna birst í Fréttablaðinu:

Svissneski frankinn er möguleg leið

Tölfræði ESB sinna og landsbyggðarstyrkirnir

Talnaleikir ESB – sinna og draumaríkið

Evrópuglufa Guðna Ágústssonar!

Af öfugri þjóðrembu og steinsmugu í Danaveldi

Einangrunarsinnar og ESB aðild

Ómarktækir fjölmiðlar

Lýðræði og flokksræði

Síðasttalda greinin birtist 4. mars síðastliðinn.

Mín fyrstu kynni af Bjarna voru þegar ég tók viðtal við hann eftir alþingiskosningarnar 2007. Það fór iðulega vel á okkur eftir það; hann sendi mér oft greinar og notaði stundum tækifærið til að gauka að mér ábendingum sem gátu komið að gagni við fréttaskrif.

Eins og Bjarni nefnir sendi hann mér grein eftir félaga sinn, það var þó ekki síðastliðið haust eins og Bjarni heldur fram, nær er að það hafi verið haustið 2007. Ég skýrði það fyrir Bjarna að ég kæmi henni trauðla að, ég man málavexti ekki nákvæmlega en mig minnir að það hafi verið sökum plássleysis. Það hafði að minnsta kosti ekkert með þær skoðanir sem birtust í greininni að gera – við höfnum ekki greinum á grundvelli skoðana svo lengi sem framsetningin er innan velsæmismarka. Bjarni svaraði með glensi í þá átt að þetta væri tímamótagrein, þar sem í henni væri talað fallega um bæði Davíð Oddsson og Ólaf Ragnar, en tók þó skýringu mína gilda. Þetta hafði að minnsta kosti engin áhrif á samskipti okkar, sem voru eftir sem áður vinsamleg. Bjarni hélt áfram að skrifa greinar, sem birtust nær flestar, ef ekki allar.

Þetta breyttist hins vegar fyrir ekki svo löngu þegar ég skrifaði frétt um greinarsafn sem Bjarni gaf út, Farsældar frón. Þar vakti athygli ný grein þar sem Bjarni kvaðst einn bera ábyrgð á því að upp úr stjórnarsamstarfi Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins slitnaði, hann hafi róið öllum árum gegn því og sagst mundu hætta á þingi ef af því yrði. (Það er kannski til marks um það hversu vel fór á með okkur Bjarna að hann sendi mér, auk Helga Seljans í Kastljósi, greinina á undan öðrum fjölmiðlum). Greinin var vissulega merkileg aflestrar. Ég minntist þess aftur á móti að hafa spurt hann um nákvæmlega þetta í viðtalinu eftir alþingiskosningar. Þá sagði Bjarni það af og frá að hann bæri ábyrgð á að upp úr slitnaði; hann hafi vissulega gert fólki grein fyrir að honum hugnaðist það ekki en ef áframhaldandi samstarf við Sjálfstæðisflokkinn yrði lendingin myndi hann styðja það. Mér fannst ástæða til að rifja þessi orð Bjarna upp og birti þau í fréttinni.

Skemmst er frá því að segja að Bjarni tók þetta afar óstinnt upp. Í símtali sem ég átti við hann daginn sem fréttin birtist var honum mjög heitt í hamsi, kallaði mig ýmsum ónöfnum, ómerkilegan lygara, leiguþý Baugs og þar fram eftir götunum. Daginn eftir birtist önnur frétt um málið, þar sem Bjarni svaraði því til að það væri ekkert ósamræmi á milli þess lýsa yfir ábyrgð á því að hafa klofið heila ríkisstjórn og að hafa áður sagst mundu styðja sömu ríkisstjórn ef hún starfaði áfram.

Eftir þetta hafa samskipti okkar Bjarna ekki verið upp á marga fiska. Bjarni heldur engu að síður áfram að senda inn greinar, sem er auðvitað sjálfsagt mál að taka við og birta. Síðasta greinin eftir hann birtist 4. mars, eins og áður kom fram, auk þess sem tvær greinar eftir hann bíða birtingar.
Bjarna finnst með öðrum orðum hið illa Baugsbákn, sem þaggar niður lýðræðislega umræðu, eftirsóknarverður vettvangur til að birta greinar sína.

Þá er rétt að halda því til haga greinar eftir aðra fulltrúa L-listans hafa birst nýlega í Fréttablaðinu; grein eftir Þórhall Heimisson birtist fyrir að verða hálfum mánuði og grein eftir Gunnar Kristinn Þórðarson birtist nú síðast á miðvikudag.

Af ofansögðu má ljóst vera að þessi færsla Bjarna Harðarsonar er ómerkilegur rógur frá upphafi til enda, að stóru leyti sprottinn af persónulegri óvild hans í minn garð. Bjarni sagði af sér þingmennsku á sínum tíma eftir að hafa gerst uppvís að bolabrögðum. Það þótti mörgum, þar á meðal mér, til marks um að hann kynni að skammast sín. Þessi færsla hans bendir til hins gagnstæða.

Bergsteinn Sigurðsson, blaðamaður á Fréttablaðinu.