Sunday, October 29, 2006

Ákveðin vonbrigði

Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Pétri Blöndal að ósigur hans í prófkjöri sjálfstæðismanna væri "ákveðin vonbrigði". Ekki bara vonbrigði, heldur ákveðin. Sem er auðvitað allt annað en þessi óákveðnu vonbrigði sem þyrmir stundum yfir fólk og gera það hnuggið. Það er erfitt að díla við vonbrigði þegar maður hefur ekki hugmynd af hverju þau stafa. Pétur getur því hrósað happi yfir að vonbrigðin hans eru ákveðin.

Monday, October 23, 2006

Silfurskeið

Glúmur Baldvinsson dregur ekki dul á að hann hefur notið mikilla forréttinda í gegnum tíðina, verandi sonur Jóns Baldvins Hannibalssonar og Bryndísar Schram. Í þætti Egils Helgasonar í gær var hann til dæmis spurður hvort hann teldi ætternið mundu hjálpa sér eða skaða í framboði. "Ég er mjög þakkklátur fyrir að vera sonur þessa fólks," sagði Glúmur, "það hefur oft komið mér til góða og ég nýt þess í samfélaginu, til dæmis þegar ég hringi í 118..."

Síðar í þættinum mætti faðir Glúms og lýsti því yfir að prófkjör væru ekki heppileg leið til að fá hæfileikafólk á þing. Ég læt öðrum eftir að draga ályktanir.

Thursday, October 19, 2006

Dagur hlýrra hjartaróta (og appelsíns)

Fyrir hádegi fékk ég áritaða bók í póstsendingu, sem yljaði mér um hjartarætur. Um kvöldmatarleytið endurtók vinkona mín leikinn með matarboði og drykk. Í kvöld færði móðir mín mér fréttir sem gerðu mig rórri. Og enn á ég eftir að fara á tónleika. Á heildina litið hlýtur þessi dagur að teljast góður.

Tuesday, October 17, 2006

Þegar neyðin er stærst...

Erla Ósk Ásgeirsdóttir, formaður Heimdalls og vinkona mín, hefur tekið til óspilltra málanna og ályktað:

"Heimdallur fordæmir tilraunir Norður-Kóreumanna með kjarnorkusprengjur. Félagið telur að allri heimsbyggðinni stafi mikil hætta af þessari þróun. Í stað þess að þróa gereyðingarvopn telur félagið ennfremur að Norður-Kórea ætti frekar að beina kröftum sínum að innviðum landsins, tryggja mannréttindi íbúa, og binda endi á langvarandi hungursneyð sem ríkt hefur þar. Sagan hefur sýnt að þjóðfélögum sem aðhyllast frelsi, lýðræði og mannréttindi farnast best."

Kominn tími til að einhver hjó á hnútinn. Enn og aftur er það félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík eru einu dugandi samtökin til að leysa krísur á borð við gereyðingavopnaframleiðslu eins af möndulveldum hins illa. Næsta skref verður væntanlega að senda erindreka á vegum Heimdallar til Norður-Kóreu, til að komast að samkomulagi við þarlend stjórnvöld. Best færi líklega á að Erla fundaði sjálf með Kim Jong Il.

Monday, October 16, 2006

Allt annað líf II

Hver hefði trúað að slík frelsistilfinning fylgdi því að klæða sig úr latex-hönskum?

Allt annað líf

Hver hefði trúað að slík frelsistilfinning fylgdi að klæða sig í latex-hanska?

Sunday, October 15, 2006

Lífið er straubretti

Meðan sumir byggja brýr sitja aðrir sem fastast og fara hvergi því þeir hata læki. Hversdagsleikinn er basískur, sem þætti seint spennandi lýsingarorð á matseðli. Og er lífið ekki bara einn risastór matseðill?

Eitthvað að þessa leið ætla ég að segja þegar ég verð í Sjálfstæðu fólki. Horfi þeir sem vilja. Hinir hyggnari noti stundina til að brjóta saman þvott (og jafnvel strauja).

Thursday, October 12, 2006

Gorbatsjov býr ekki lengur hér

Varla sála á vinnustaðnum, allir að hlusta (og horfa býst ég við) á Gorbatsjov. Ég afþakkaði miða. Mæti kannski þegar Stalín kemur.

Væri ég hins vegar á fundinum myndi ég spyrja Gorbatsjov eftirfarandi spurninga:
- Hvar er Raísa?
- Sendirðu einhvern tímann einhvern í gúlagið?
- Er Raísa nokkuð í gúlaginu?
- Hvor var skemmtilegri, Andropov eða Tsjernenko?
- Hvor fannst Raísu skemmtilegri, Andropov eða Tsjernenko?
- Hvor var leiðinlegri, Mykojan eða Malenkov?
- Gogol eða Búlgakov?
- Beitiskipið Pótemkín eða Titanic?(sem leiðir að: Eisenstein eða Cameron? (sem leiðir að: Cameron eða Tarkovsky? (sem leiðir að: Tarkovsky eða Sodherbergh?)))
- Ferðu mikið í bíó?

Spurningar á borð við þessar halda fyrir mér vöku á nóttunni.

Wednesday, October 11, 2006

Guantanamo og Gyrðir

Svo mikið að segja - svo lítill tími. Byrjum samt á föngunum úr Guantanamo, guð hjálpi þeim. Tveir af Bretunum sem myndin Leiðin til Guantanamo fjallar um, komu hingað til lands í síðustu viku í tilefni af Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík. Tvisvar sá ég þá sitja fyrir svörum: í Tjarnarbíó á eftir frumsýningunni og í Iðnó. Og spurningarnar, maður lifandi!

"Do you hate the Americans?" og "What is your stand on 9/11?" var meðal þess að sem fékk að fljóta í Tjarnarbíó. Merkilegt nokk hata þeir ekki Kana og fannst það...ja, heldur verra að hryðjuverkamenn skyldu fljúga flugvélum á fólk. Toppurinn var þó sjálfsagt þegar kona nokkur spurði hvort þeir - strákarnir sem voru látnir dúsa í einu illræmdasta fangelsi í heimi í tvö og hálft ár - hefðu séð bandarískan fréttaskýringaþátt sem fjallaði um pyndingar og Guantanamo. Þeir hristu hausinn. "You should really see it," sagði hún þá. Þeir litu á hvorn annan og brostu vandræðalega.

Iðnó var öðruvísi. Flestir þarna inni sæmilega greint fólk held ég, en alltaf þarf það að vera hinn fámenni en háværi minnihluti vitleysinga sem treður sér fram. Í þetta sinn einkennileg blanda af álpappírshattaliðinu, stútfullu af samsæriskenningum, og (líklega) stjórnmálafræðinemum, sem voru sannfærðir um að þeir væru a) ótrúlega vel að sér í alþjóðamálum og b) ótrúlega sleipir í ensku og mættu, að því er virtist, með það eitt að markmiði að láta ljós sitt skína (og skipti engu máli þótt strákarnir í hettupeysunum á sviðinu væru ekki prófessorar í alþjóðastjórnmálum).
Tökum dæmi:
Fífl úr stjórnmálafræði: "My question is about accountability: In a representative democracy is it not the blöblöbblöjfkldjfkljdsljvldvælnvdkjnvcklds......".
Ó, bara ef augnaráð gæti stundum drepið.

Laugardagurinn var góður - framan af að minnsta kosti. Vaknaði snemma, kláraði að lesa bók. Skömmu eftir hádegi fór ég í Árbæinn og tók viðtal við Gyrði Elíasson, sem bauð kaffi. Svona eiga laugardagar að vera.