Tuesday, December 30, 2008

Þrælabúðir

Mannlíf tilnefnir Guðmund Guðmundsson, landsliðsþjálfara í handbolta, sem mann ársins. Það er sjálfsagt verðskuldað. Ég set hins vegar spurningamerki við fyrirsögnina á viðtalinu sem fylgir við Guðmund í tilefni af vegtyllunni - "Þrælabúðir í Peking".

Guðmundur segir: "Ég hef verið spurður hvort ekki hafi verið gaman á Ólympíuleikunum. Í raun voru þetta þrælabúðir. Ég sá ekkert og gerði ekkert annað en að vinna. Fór aldrei út úr þorpinu. Var inni í íbúðinni, á æfingum eða leikjum. Ég gerði ekkert annað þessar fjórar vikur."

Nú efast ég ekki um að Guðmundur hafi verið undir miklu álagi á þessum tíma og það hafi komið í veg fyrir að hann hafi getað notið þeirra lystisemda sem Peking upp á að bjóða. En menn ættu kannski að fara varlega í að lýsa því sem þrælabúðum að reka á eftir strákum í handbolta á ágætum launum, svona í ljósi þess að steinsnar frá Ólympíuþorpinu voru kannski börn látin hræra blýi og melamíni út í málningu og hundamat.

Monday, December 29, 2008

Kjánahrollur ársins

Morgunblaðið birtir í dag lista í tíu liðum yfir kjánahroll ársins. Í níunda sæti er þátturinn Singing Bee. Það má til sanns vegar færa. Líklega var þó kjánahrollurinn yfir þeim þætti aldrei meiri en kvöldið sem Morgunblaðið atti kappi við 24 stundir, nokkrum klukkustundum eftir að síðarnefnda dagblaðið var lagt niður.

Thursday, December 25, 2008

Pinter allur

Harold Pinter er allur, 78 ára gamall. Hann greindist með krabbamein árið 2002. Í mars það ár birtist eftirfarandi ljóð eftir hann í Guardian:


Cancer Cells

"Cancer cells are those wich have forgotten to die."
(Nurse, Royal Marsden hospital)


They have forgotten how to die
And so extend their killing life.

I and my tumour dearly fight.
Let's hope a double death is out.

I need to see my tumour dead
A tumour which forgets to die
But plans to murder me instead.

But I remember how to die
Though all my witnesses are dead.
But I remember what they said
Of tumours which would render them
As blind and dumb as they had been
Before the birth of that disease
Which brought the tumour into play.

The black cells will dry up and die
Or sing with joy and have their way.
They breed so quietly night and day,
You never know, they never say.

Thursday, December 18, 2008

Konur

Lauk við Konur Steinars Braga klukkan hálf þrjú í nótt. Svaf lítið eftir það. Er enn með ónotakennd, þetta er ekki bók sem sleppir.

Wednesday, December 17, 2008

Yfirbót Símonar

Símon Birgisson, fyrrverandi blaðamaður og listnemi, gengur fram fyrir skjöldu og segist geta borið vitni um ritskoðun. Þetta atvikast reyndar með dálítið sérstökum hætti; hefst með því að Snorri Ásmundsson segir í viðtali við Dagblaðið Nei að Björgólfur Guðmundsson hafi látið kæfa frétt sem Símon hafi verið að vinna fyrir DV, um að Björgólfur hafi komið í veg fyrir gjörning við opnun Klink og Bank. Símon rekur hins vegar ekki minni til þess.

Símon man hins vegar eftir einu dæmi ritskoðun: frétt sem hann skrifaði árið 2005 um að Fréttablaðið ætti í fórum sínum óbirtar upplýsingar um ákærur á hendur Baugsmanna. Fréttin var ekki birt. Símon segir að ritstjórar sínir hafi meðal annars gefið sér þá skýringu að þeir vildu ekki fara í stríð við nágrannana, en á þessum tíma voru Fréttablaðið og DV til húsa á sömu hæð í Skaftahlíðinni. Það var óskrifuð regla að blaðamenn beggja blaða sýndu þann drengskap að “stela” ekki fréttum frá hinum; það er að segja nýttu ekki upplýsingar sem þeim áskotnaðist "óvart" vegna nálægðarinnar við hinn miðilinn.

Ef ég man rétt þá snerist málið einmitt um það. Sigurjón M. Egilsson, sem þá var fréttaritstjóri á Fbl., kvartaði við Jónas Kristjánsson, ritstjóra DV, yfir því að Símon hefði ekki aflað sér þessara upplýsinga heiðarlega. Jónas hafi fallist á það og því ekki birt fréttina. Símon kveðst síðar hafa skrifað aðra frétt um málið en hún ekki heldur verið birt. Gáfu ritstjórar þá sömu ástæður og fyrr, þeir vildu ekki nágrannaerjur auk þess sem þeir hafi útskýrt að þeim þætti þetta ekki það merkilegt mál.

Engu að síður kveðst Símon hafa túlkað þetta sem ritskoðun og gerir því skóna að það hafi ráðið úrslitum um að hann hafi sagt upp á DV. Hann nefnir reyndar að hann hætti ekki alveg strax og fleira hafi líka spilað inn í, kjaramál og annað. Þá má nefna þetta mál kom ekki í veg fyrir að Símon sæktist áfram eftir vinnu hjá 365 miðlum – hann átti eftir að vinna fyrir bæði NFS og Vísi.

Símon bætti fljótlega við annarri færslu í dag þar sem hann dró í land – segir þetta líklega ekki hafa verið hreinræktuð, svæsin ritskoðun sem hann varð fyrir á DV, heldur einhvers konar sambland af ritskoðun, ritstjórn, heilbrigðri skynsemi og eigendavaldi. Sem er auðvitað miklu betri en þessi hefðbundna, svæsna ritskoðun en allt um það.

Símon segir að með þessu sé hann ekki að reyna að slá sig til riddara; hann sé bara að greina frá því sem gerðist. Það sé mikilvægt að allt komi á yfirborðið á Nýja Íslandi. Þetta er hans framlag í því uppgjöri. Það er auðvitað gott og blessað. En vilji Símon ráðast í upggjör eða gera yfirbót, er hann að byrja á röngum enda. Símon Birgisson var skrifaður fyrir mörgum af líklega meinfýsnustu fréttum sem skrifaðar hafa verið í íslenskt dagblað fyrr og síðar. Mögulegur skaði af meintri þjónkun yfirmanna hans við ríka kaupsýslumenn er enginn, samanborið við þau sárindi sem Símon olli fólki sem gat ekki hönd fyrir sig borið.

Háttsemi Símonar á DV á sínum tíma eru um margt merk heimild um eitrið sem tók sér bólfestu í íslensku samfélagi á síðustu árum. Hann sveifst einskis, lét sér í léttu rúmi liggja þótt um væri að ræða geðfatlað fólk eða þótt fólk hefði ekki unnið sér neitt til sakar; það voru dæmi þess það þess að hann hringdi í foreldra einhvers sem hafði komist í kast í lögin. Skipti engu máli þótt foreldrar neituðu að tjá sig, Símon notaði það sem átyllu til að birta af þeim mynd. Símoni svíður að vera kallaður svín í athugasemdakerfinu hjá sér. Það er skiljanlegt en þangað til það birtist mynd af honum á forsíðu dagblaðs þar sem hann er kallaður hestariðill getur hann ekki kvartað.

Þetta átti sér sjálfsagt ekki stað í neinu tómarúmi, maður hefur svo sem heyrt sögurnar af því hvernig reyndari menn öttu Símoni á foraðið, að ógleymdri ábyrgð þeirra sem sáu sér hag í að reka dagblað sem beitti slíkum vinnubrögðum sem DV gerði. Það breytir því hins vegar ekki að Símon er sjálfur ábyrgur fyrir því að hafa tortímt eigin mannorði. Honum virðist nú umhugað að endurreisa það, bendir á að tímanir breytist og mennirnir vel. Hann virðist hins vegar ætla að stytta sér leið, hoppa á ritskoðunarvagninn (með fátæklegum rökstuðningi) og vona að það nægi til að menn slái striki yfir fortíðina. Það sorglega er að sumir virðast reiðubúnir til þess.

Þeir sem þekkja Símon segja að hann sé ljóngáfaður. Það efast ég ekki um. Það er að minnsta kosti vitni um nokkur klókindi að ætla að hagnýta sér efnahagshrun og reiði almennings út auðmenn til að fá fólk að fyrirgefa sér að hafa verið vondur við fólk. Hans vegna vona ég að eitthvað meira og dýpra búi að baki.

Es tud mir leid...

"Es tud mir leid aber Ihrer Mann ist tod." Þetta eru fleyg orð. Þessar þungu fréttir færði Stephan Derrick nefnilega ófáum konum í gegnum tíðina.

Ætli læknirinn, sem úrskurðaði Horst Tappert látinn hafi, staðist freistinguna þegar hann flutti ekkjunni tíðindin?

Tuesday, December 16, 2008

Landsbankinn, Klink og Bank og Nýhil

Hið spriklandi fína dagblað Nei birtir frétt um að Landsbankinn hafi komið í veg fyrir gjörning Snorra Ásmundssonar í tilefni af opnun Klink og Bank árið 2004. Haft er eftir Snorra að Nína Magnúsdóttir, stjórnarmaður í Kling og Bang, hafi flutt honum þau skilaboð frá Ásgeir Friðgeirssyni, hægri hönd Björgólfs Guðmundssonar, að ef af gjörningum yrði myndi Landsbankinn bakka út úr dæminum. Starfsaðstaða 160 listamanna hafi verið í húfi. Í frétt Nei kemur enn fremur fram að frétt um málið í DV hafi verið kæfð.

Um eftirmálin segir Snorri meðal annars: "Svo hefur Björgólfur verið hálfheilagur maður og þegar ég hef rætt þetta mál hefur fólki þótt þetta mjög óþægilegar upplýsingar. Ég hef rætt þetta við listamannakollega mína en það þorði enginn að fást við það. Ekki þannig. Björgólfur hefur haft ógnarafl sem enginn vildi taka afstöðu á móti. Og ég þagði með þessu."

Ekki veit ég hvort Snorri Ásmundsson ræddi þetta við nokkurn í Nýhil, eða hvort þessi frásögn hafi borist þeim til eyrna. Nýhil sóttist alltént eftir samstarfi við Landsbankann árið 2005. Því lyktaði með því að Landsbankinn keypti 1.200 eintök af ljóðbókum frá Nýhil og dreifði í bókasöfn á landsbyggðinni. Í tilefni af þessu tók ég stutt viðtal við Viðar Þorsteinsson, sem birtist í Fréttablaðinu 8. nóvember 2005. Þar stendur meðal annars:

"Viðar viðurkennir að það sé fólgin viss mótsögn í því að grasrótarhreyfing reiði sig á fjármálafyrirtæki til að halda sér við.
"Það er að vissu leyti einkenni á okkar samtíma. Íslensk grasrótarlist verður sífellt háðari stórfyrirtækjum, Klink og Bank er besta dæmið um það. Á meðan ríkið sinnir þessum geira ekki hafa fjármálafyrirtæki áttað sig á að það er heilmikið vit í því að styrkja grasrótarlist. Þótt við deilum ekki endilega markmiðum og hugmyndum þessara stofnana getum við nýtt okkur þá hagsmuni sem fara saman," segir Viðar.
"Það getur vissulega verið áhættusamt og hvort þetta dragi úr okkur tennurnar eða ekki verður tíminn að leiða í ljós.""

Síðan eru liðin þrjú ár. Og í ljósi þess sem Dagblaðið Nei upplýsir í dag er ekki úr vegi að spyrja: Dró samstarfið við Landsbankann á einhvern hátt tennurnar úr Nýhil?

Monday, December 15, 2008

Framhald af útúrdúr um RÚV

Á heimasíðu RÚV má finna reglur um fréttir og dagskrárefni tengt þeim í Ríkisútvarpinu. Í níunda lið segir: "Óheimilt er að útvarpa án leyfis ummælum manns ef hann vissi ekki að þau voru hljóð- eða myndrituð, nema ummælin hafi verið viðhöfð á opnum vettvangi."

Þarna er í engu kveðið á um undanþágur ef upptakan á brýnt erindi til almennings. Kastljós þverbraut því reglur Ríkisútvarpsins. Það breytir þó engu um alvarleika þess að ritstjórinn með hattinn er tvísaga.

Hinn fastmótaða hreinskiptni RÚV -útúrdúr

Reynir Traustason er í klandri, á þvi leikur enginn vafi. Ég velti hins vegar fyrir mér einu í sambandi við ákvörðun Kastljóssins að spila upptökuna af samtali Jóns Bjarka og Reynis. Hún virðist nefnilega ganga þvert á yfirlýsta stefnu RÚV, stefnu sem Páll Magnússon útvarpsstjóri áréttaði fyrir skömmu síðan.

Reynir kveðst vera að "kanna réttarstöðu sína" og undrast að RÚV hafi spilað upptökuna; hún hafi ekki gerð með vitund Reynis og hann talið sig vera að ræða við Jón Bjarka í trúnaði. Þórhallur Gunnarsson (sem gerði heimildarmyndina Skuggabörn ásamt Reyni) segir að samtalið hafi átt brýnt erindi til almennings og því hafi verið ákveðið að spila hana.

Það er síður en svo óþekkt að fjölmiðlar spili upptökur sem hafa náðst án vitundar þess sem er á henni og gegn vilja viðkomandi; Kompás grípur til dæmis oft til þess. Þetta er hins vegar umdeild aðferð og ég man hins vegar ekki í fljótu bragði eftir að hafa séð slík vinnubrögð ástunduð á RÚV, enda stutt síðan útvarpsstjóri hélt því fram að það myndi stefna trúverðugleika stofnunarinnar í voða.

Ekki er langt síðan G. Pétur Matthíasson birti á bloggsíðu sinni upptökur af Geir H. Haarde í ólundarkasti. Þar kom greinilega fram að Geir taldi sig ekki vera í viðtali og virtist telja að slökkt hefði verið á myndavélum. G. Pétur ákvað þó að birta myndskeiðið að ígrunduðu máli, þar sem hann taldi að það ætti það brýnt erindi til almennings. Viðbrögð Páls Magnússonar voru á þá leið að skipa Pétri að biðjast afsökunar og skila spólunum með upptökunum, ellegar myndu lögfræðingar RÚV blanda sér í málið. Páll sagði að Pétri væri óheimilt að nota efni frá RÚV með þessum hætti og var ekki síður ósáttur við að fyrrverandi fréttamaður RÚV hefði notað upptökur sem ekki var ætlað að kæmu fyrir augu almennings; hann sagði að þetta væri álitshnekkir fyrir stofnunina og hefði “með að gera þau heilindi og hreinskiptni sem Ríkisútvarpið þarf að sýna í samskiptum við fólk og getur stefnt í voða því trausti og trúverðugleika sem frétta – og dagskrárgerðarmenn RÚV þurfa að njóta í samfélaginu, - og þannig torveldað okkar fólki að rækja skyldustörf sín.

Orð útvarpsstjóra verða ekki skilin öðruvisi en að það sé opinber stefna RÚV að fréttamenn færi sér ekki í nyt upplýsingar og/eða upptökur sem hefur verið aflað án vitundar eða gegn vilja þess sem lét þær af hendi. Slíkt stefni í voða því trausti og trúverðugleika sem fréttamenn RÚV verði að njóta. Kastljós virðist vera á öðru máli en Páll. Nema RÚV hafi enga fastmótaða stefnu í þessum efnum, en útvarpsstjóri þykist bara hafa það þegar það hentar.

Þetta er vissulega útúrdúr frá aðaltriði málsins og bera að ræða sem slíkan - en engu að síður álitamál sem vert er að velta fyrir sér.

Að níða skóinn...

Bush má þakka fyrir að hafa verið í Írak en ekki Hollandi. Miklu verra að verða fyrir tréklossum en sandala.