Wednesday, April 29, 2009

Hárþing

Í Fréttablaðinu í dag segir að aldrei hafi fleiri sköllóttir verið á þingi, alls sjö. Að óathuguðu máli ætla ég ekki að fjölyrða um hvort um met sé að ræða. Hins vegar verður að teljast líklegt að sköllóttum þingmönnum eigi eftir að fjölga á kjörtímabilinu. Mér dettur að minnsta kosti þrír þingmenn í hug sem eru aðeins hársbreidd frá því að komast í hópinn.

Tuesday, April 28, 2009

Þór á þingi

Mér skilst að Þór Saari, nýbakaður þingmaður Borgarahreyfingarinnar, sé af finnskum ættum. Ætli það sé þess vegna sem hann vill Lappa upp á Alþingi?

Monday, April 27, 2009

Uppruni orðanna

Vísir upplýsir að konan sem gekk örna sinna í kjörklefanum um helgina sé hústökumaður. Það leiðir hugann að orðsifjafræðinni. Í ensk-íslenskri orðabók má meðal annars finna þessi tvö orð:

squat: sitja á hækjum sér.

squatter: e-r sem leggur undir sig landareign eða húsnæði.

Eru tengsl þarna á milli? Ætli hugtakið "squatter" sé dregið af því að þeir sem leggja sig undir hús séu iðulega fólk af því sauðahúsi sem sest á hækjur sér og gerir stykki sín á almannafæri?

Tuesday, April 21, 2009

Bekkjarpartí

Gefum okkur að ég bjóði mig fram til formanns bekkjarfélags - segjum í 6E. Í kosningabaráttunni lofa ég því að á hverju föstudagskvöldi verði bekkjarpartí með pitsuveislu heima hjá Einari Snæ Bjarnasyni í 6J, sem eins og allir vita á vel stæða foreldra og býr í stóru húsi. Við Einar eigum sameiginlegan vin, Arnar Grétar Stefánsson í 6F, sem þykir ráðagóður og áhrifamikill og ég fullyrði við bekkjarsystkin mín að hann muni hafa milligöngu um þessi pitsupartí heima hjá Einari fyrir mína hönd. Þegar Einar í 6J fréttir af þessu verður hann fúll og skrifar á Facebook-vegginn minn að hann hafi ekki hugsað sér að halda pitsupartí heima hjá sér á hverju föstudagskvöldi og gildi þá einu sameiginlegur vinskapur okkar við Arnar í 6F. Ég geti bara haldið mín eigin bekkjarpartí.

Mín viðbrögð? Ég byrja vitaskuld á því saka Einar um dólgslega árás í minn garð áður en ég arka á fund hjá skólastjóranum og klaga hann fyrir óeðlilega íhlutun af kosningabaráttu minni.

Sköpunarkenningin

Á framboðsfundi fyrir stuttu lagði Illugi Gunnarsson áherslu á að stjórnmálamenn sköpuðu ekki störf, þeir gætu eingöngu lagt grunninn að hagstæðu umhverfi þar sem störf verða til. Í gær sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir um að það þyrfti að skapa störf í Suðurkjördæmi. Er Sjálfstæðisflokkurinn klofinn í afstöðu sinni til sköpun starfa?

Með læsileika að leiðarljósi

Forlagið auglýsir: "Í dag kemur út bókin Sofandi að feigðarósi eftir Ólaf Arnarson. [...] Bókin er skrifuð með læsileika að leiðarljósi..."

Wednesday, April 15, 2009

Spámannlega vaxinn

Beðið eftir dylgjum

Nú telur maður niður mínúturnar þangað til Egill Helgason ræðst á Brynjar Níelsson. Hann er sjálfsagt að gúggla hann núna og á líklega eftir að byrja færsluna á að rifja upp vafasama menn sem Brynjar hefur varið í gegnum tíðina. Lætur svo hýenunum í athugasemdakerfinu um eftirleikinn.

Tuesday, April 14, 2009

Allur munur á brú og borg

Samfylkingin leggur fram aðra meitlaða aðgerðaáætlun með grípandi yfirskrift: Skal gert – leiðir jafnaðarmanna í efnahags-, atvinnu- og velferðarmálum.

Ánægjulegt er að ólíkt öðrum flokkum fellur Samfylkingin ekki í frasagrifjuna. Góðu heilli sé ég til dæmis ekki minnst orði á þá kunnu klisju að slá „skjaldborg um heimilin“. Aftur á móti hefur Samfylkingin hugsað sér að leggja „trausta velferðarbrú fyrir heimilin“. Sem er eitthvað allt annað og áhrifaríkara en þessi skjaldborg.

En sporin hræða. Það tók Samfylkinguna ekki langan tíma í að snúa Fagra Íslandi upp í að farga Íslandi. Ætli hún verði að sama skapi lengi að brenna velferðarbrúna að baki sér?

Alvarlegar ásakanir

Í frétt á Mbl.is er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir spurð út í þau orð Svandísar Svavarsdóttur, að háir styrkir Landsbankans og FL Group til Sjálfstæðisflokksins vekji upp spurningar um mútur.

Þorgerður Katrín segir meðal annars:
„Mér finnst það mjög skringilegt að manneskja sem var meðal annars í samstarfi við Samfylkinguna, sem gerði ekkert annað heldur en að gera grín að Sjálfstæðismönnum í borgarstjórn, sexmenningunum í borgarstjórn ... Ég hef dregið það fram að það var heilt áramótaskaup sem fór í það að stríða sexmenningunum, valta yfir þá.“

Hér talar fyrrverandi menntamálaráðherra sjálfsagt ekki út í loftið. Getur verið að Svandís Svavarsdóttir hafi staðið á bakvið síðasta áramótaskaup?

Tuesday, April 07, 2009

"...þar sem illmælgi og gróusögur verða mikilvægari heldur en sannfæringarkraftur og góðar hugmyndir"

Vefritið Deiglan skrifar frétt um að Jóhanna Sigurðardóttir hafi hætt við að fara á leiðtogafund NATO um síðustu helgi sökum lélegrar enskukunnáttu. Fyrir það hafi hún, sem og Ísland, beðið álitshnekki innan NATO.

Ef það er rétt er það sjálfsagt frétt og þótt Deiglan sé ekki eiginlegur fréttavefur sé ég fátt því til fyrirstöðu að þar séu slíkar fréttir birtar, að því gefnu að umsjónarmenn hennar telji sig hafa nægilega sterkar heimildir fyrir innihaldinu.

En hvað hefur Deiglan fyrir sér? Í greininni segir: "Fjarvera Jóhönnu á sér þó aðrar skýringar, að því er heimildir Deiglunnar herma. [...] Ekki þarf að fara mörgum orðum um hvað þessum mönnum finnst um þá ástæðu sem íslenski forsætisráðherrann gefur fyrir fjarveru sinni, að það sé svo mikið að gera heima fyrir að hún komist ekki á fundinn. [...] Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Deiglunnar úr tveimur ráðuneytum hafði Jóhanna ráðgert að fara á leiðtogafundinn. [...] Málið þykir mikill álitshnekkir fyrir Íslendinga sem stofnþjóð í NATO. Viðmælendur Deiglunnar í utanríkisþjónustunni segja málið allt hið vandræðalegasta."

Heimildir Deiglunnar byggja semsagt á "áreiðanlegum heimildum úr tveimur ráðuneytum" og nafnlausum viðmælendum úr utanríkisþjónustunni. Þar sem enginn höfundur er skráður fyrir greininni bera ritstjórar vefritsins ábyrgð á henni, þær Sigríður Dögg Guðmundsdóttir og Soffía Kristín Þórðardóttir

Það er svo sem þekkt, nokkuð algengt meira að segja, að hefðbundnir fjölmiðlar birti fréttir sem þeir byggja á "áreiðanlegum" nafnlausum heimildum; heimildarmönnum sem blaðamenn treysta en geta af einhverjum ástæðum - til dæmis starfs síns vegna - ekki komið fram undir nafni. En á Deiglunni hefur hins vegar verið varið við slíkum efnistökum, til dæmis í ágætum og umhugsunarverðum greinarflokki Þórlindar Kjartanssonar, einum af stofnendum Deiglunnar ( titlaður "ritstjóri emerítus" á heimasíðunni), sem bar heitið Pappírstígrar og slúðurberar.

Í greininni Pappírstígrar og slúðurberar IV skrifar Þórlindur meðal annars:
"Enn ein birtingarmynd þeirrar nafnlausu hefðar sem virðist hafa skotið föstum rótum í pólitískri umræðu á Íslandi er tilhneiging fjölmiðla til að vísa blygðunarlaust til nafnlausra heimildarmanna. Þeir sem starfað hafa í fjölmiðlum hafa flestir lært að betra og ábyrgara sé að fá fólk til að tjá sig undir nafni, jafnvel þótt menn séu gjarnan til í að slúðra og taka stórt upp í sig ef því er lofað að ummæli séu "off record."

[...]

Þegar fréttir eru settar af stað - jafnvel búnar til - með nafnlausum skrifum á netinu og í dagblöðum - er ekki nema furða að vandaðri fjölmiðlum séu búnir nokkrir erfiðleikar. Það er ömurlegt að sitja eftir með sárt ennið á meðan aðrir skúbba stórfréttum. Freistingin er því nokkuð stór að taka þátt í þeim leik að hringja út rúnt á nokkra málglaða en feimna álitsgjafa - leyfa þeim að láta gamminn geysa gegn loforði um nafnleynd og trúnað og birta svo afraksturinn sem frétt. Svo virðist sem þetta sé orðin viðtekin venja meðal allra fjölmiðla á Íslandi.

[...]

Hættan við þetta er hins vegar mjög mikil. Nafnlausir heimildarmenn, sérstaklega í stjórnmálum, eru að jafnaði ekki hlutlausir áhorfendur. Þvert á móti ættu fjölmiðlamenn að tortryggja mjög tjáningarþörf þeirra í skjóli nafnleyndar. Stjórnmálamenn sem tjá sig nafnlaust við fjölmiðla hafa örugglega eitthvað markmið. Þegar fjölmiðlamenn leyfa þeim að koma skoðunum sínum á framfæri - og taka sjálfir ábyrgð á orðum þeirra - eru þeir að leika sér að eldi.

[...]

Blaðamenn hafa venjulega mjög mikinn vara á þegar vitnað er í nafnlausa heimildarmenn. Það er einungis gert ef talið er að það steðji raunveruleg hætta að heimildinni eða aðrir slíkir hagsmunir séu í húfi. Hugmyndin er ekki sú að spara fólki þau óþægindi að koma upp um afstöðu sem getur valdið öðrum sárindum.

Stjórnendur fjölmiðla á Íslandi hljóta að velta fyrir sér þessa dagana hvort ekki sé tilefni til að endurskoða reglur um nafnlausan fréttaflutning. Kjósendur eiga heimtingu á því frá kjörnum fulltrúum að þeir gefi upp afstöðu sína til þeirra mála sem upp koma. Fjölmiðlar eru mikilvægasti bandamaður kjósenda í að tryggja að stjórnmálamenn standi við þessar skyldur sínar og komist ekki upp með að breyta stjórnmálum í barnalegan sandkassaleik þar sem illmælgi og gróusögur verða mikilvægari heldur en sannfæringarkraftur og góðar hugmyndir."


Ég fæ ekki betur séð að "frétt" Deiglunnar um lélega enskukunnátta Jóhönnu sé einmitt af þeirri sort sem Deiglan varaði eindregið við fyrir ári síðan og hvatti fréttamiðla til að gjalda með varhug. Er nokkur ástæða til að verða ekki við því?