Wednesday, October 29, 2008

Fyrir útlendinga

Mér skilst að Háskólinn í Reykjavík kenni námskeið á ensku. Eftir áramót verður kannski boðið upp á: "The Icelandic Economy - Crash Course."

Monday, October 27, 2008

Gleymum IMF


Ætli enginn innan ríkisstjórnarinnar hafi viðrað þá hugmynd að sækja um lán hjá ELO?

Thursday, October 23, 2008

Auðmagnið og krúttin

Í mars 2005 var ég staddur á Ísafirði, á blaðamannafundi fyrir rokkhátíðina Aldrei fór ég suður, sem þá var haldin í annað sinn. Eftir fundinn rakst ég Mugison og Ragnar Kjartansson á Langa Manga og úr því varð helgarviðtal sem birtist í Fréttablaðinu 19. mars. Það er ástæða að rifja upp seinni hluta viðtalsins:

Að hafa efni á prinsippum
"Það kemur óneitanlega spánskt fyrir sjónir að sjá Örn [Elías - Mugison] og Ragnar spila lagið um gúanóstelpuna umkringda lógóum frá Símanum, Flugfélagi Íslands og Íslandsbanka, styrktaraðilum hátíðarinnar.
"Jú, það er kannski rétt," kinkar Örn kolli, "en þetta gerir okkur kleift að gera svo mikið fyrir svo marga, sem er auðvitað bara flott." Ragnar segir að það sé til marks um tíðarandann að fyrirtæki séu orðin miklu opnari fyrir því að setja peninga í listir, þar á meðal tónlist sem hvarvetna annars staðar þætti vera á jaðrinum. "Það eru risin upp ofurveldi sem eiga drungalega mikið af peningum og komnir til sögunnar svona velunnarar listanna í anda Medici-ættarinnar í Flórens. Þetta er auðvitað gott að mörgu leyti, en verður kannski til þess að maður er feimnari við að vera með stæla. Ég sem síður reiðilegt baráttulag ef það er hætta á að það komi illa við fyrirtækið sem styrkir mig."
Örn segir að staðan sé einfaldlega sú að maður verði að hafa efni á að hafa prinsipp. "Ég seldi lag í auglýsingu og var virkilega komplexaður yfir því. Ég hitti mann sem sagði mér að það hefði eyðilagt lagið fyrir sér að heyra það í jólaauglýsingu frá einhverjum banka. Þetta hafi verið uppáhalds ríðulagið sitt en nú gat hann ekki riðið við það án þess að hugsa um yfirdráttinn," segir Örn og hlær. "En án gríns, þá eyðileggur maður vissulega ákveðinn anda í laginu með þessu, en á móti kemur að ég átti fyrir salti í grautinn í tvo mánuði og notaði þann tíma til að taka upp tónlistina fyrir Næsland. Það er búið að innræta manni að það sé ekki flott að selja tónlistina sína í auglýsingar, en þetta er líka spurning um hvort maður þurfi að hækka yfirdráttinn eða ekki. Maður þarf að hafa efni á að hafa svona prinsipp."
Ragnar bendir á muninn á myndlist og tónlist í þessum efnum. "Þegar maður selur myndlistarverk stendur það enn sem sjálfstætt verk, en í músík er verið að kaupa lag inn í eitthvað annað sem getur auðvitað gjörbreytt því."

Klíkuskapurinn hættur að vera vandræðalegur
Erni finnst að feitir ríkisstyrkir til einstakra tónlistarmanna eigi ekki að þó vera valkostur fyrir tónlistarmenn. "Hverjir eru það sem myndu útdeila slíkum styrkjum? Það er alltaf eitthvað klíkumynstur í gangi á Íslandi og það er fyrir löngu hætt að vera vandræðalegt. Ég held að enginn geti sagst aldrei hafa fengið neitt út á það að þekkja einhvern. Þetta er orðið partur af þjóðarvitundinni og einu skiptin sem maður kippir sér upp við þetta er þegar maður sér stjórnmálamenn redda einhverjum úr klíkunni sinni vinnu. Hættan er hins vegar sú að þetta taki allt pönkið úr tónlistinni."
Ragnar tekur undir þetta og segir að ef til vill megi rekja það til klíkumeðvirkni hins fámenna Íslands að það eru fá pólitísk bönd starfandi. "Mér finnst ótrúlega virðingarvert að gera pólitíska tónlist en ég skil að menn séu hræddir við að vera með stæla ef þeir ætla að sækja um styrk í tónlistarsjóð menntamálaráðuneytisins. Mér fannst rappið lofa miklu sem vettvangur fyrir pólitíska tónlist en það hefur snúist upp í það að menn gera ekkert nema að kalla hver annan hálfvita." "Mér finnst að yrkisefnin mættu vera pólitískari," samsinnir Örn. "Nóg geta tónlistarmenn baktalað hvorn annan."
Ragnari finnst að ríkið eigi hins vegar að styrkja tónlistargeirann. "Það er enginn skortur á íþróttamannvirkjum, en ef þú ert í tónlist er það stöðugt basl að finna æfingahúsnæði." Örn bætir því við að forgangsröð stjórnvalda í þessum efnum sé fáránleg. "Ég tók þátt í þessu Parísarrugli á vegum menntamálaráðuneytisins. Þar voru peningarnir ekki sparaðir, en þetta reyndist vera allsherjar brandari. Tónlistarmenn mættu á eigin forsendum til að spila fyrir embættismenn sem var boðið en ekki fólk sem kom gagngert til að hlusta á tónlistina. Tónlistin var algjört aukaatriði."
Ragnar segir það oft hjákátlegt að fylgjast með stjórnmálamönnum, sem hafa lítið vit á hvað er að gerast í íslensku tónlistarlífi, hampa tónlistarmönnum á tyllidögum. "Einn ráðherra sem lætur þessi mál sig varða hélt þar til fyrir skömmu að Smekkleysa væri hljómsveit!"

Tommy Lee í fósturstellingu
Ragnar og Örn hafa báðir verið kenndir við "krúttkynslóðina" svokölluðu. Þeir segja að þetta helgist af ákveðinni þörf hjá fólki til að stimpla allt. "Öddi er orðinn ofurmannlegi og vinalegi gaurinn og við í Trabant erum flippuðu týpurnar sem spiluðu á Bessastöðum og erum geðveikt klikkaðir. En þetta er auðvitað rulla sem við höfum leikið okkur með; Trabant eru óttalegir sirkusapar, en hafa fulla innistæðu fyrir tónlistinni sinni."
Örn viðurkennir að hann sé jafnvel farinn að gangast upp í hlutverki einlæga rokkarans. "Ég stóð í röð fyrir utan Kaffibarinn um daginn og dyravörðurinn spurði hvort ég vildi ekki koma fram fyrir. Mér leist ekkert illa á það en fór fljótlega að hugsa að ég ætti bara að standa í röðinni eins og annað fólk. Ég held að það hafi verið ofurmeðvitund og hræsni sem réð þessu frekar en viljinn til að vera alþýðuhetja og maður fólksins."
"Ég held að þetta með krúttkynslóðina sé tilraun til að svipta mann kúlinu," segir Ragnar. "Það er verið að reyna að draga úr okkur tennurnar og gera okkur meinlaus. Ég skil þetta samt ekki alveg, það var einhver grein í DV um daginn þar sem furðulegasta fólk var kallað krútt, til dæmis Urður í Gusgus, einhver mesti sóðakjaftur sem ég þekki. Þetta er ágætur brandari og hvað getur maður svo sem gert. Ég man reyndar eftir viðtali við Tommy Lee, úr Mötley Crüe, þar sem hann sagðist alltaf leggjast í fósturstellinguna þegar hann hlustaði á Sigur Rós. Ef það er eitthvað sem má kalla sigur krúttkynslóðarinnar þá er það Tommy Lee í fósturstellingunni."

Saturday, October 18, 2008

Sýsifos á Bessastöðum

Áhugamenn um goðafræði eru sjálfsagt í essinu sínu nú þegar allt úir og grúir af dæmum sem hreinlega hrópa á að fornar táknmyndir verði heimfærðar upp á. Útrásarvíkingarnir ósnertanlegu eru til dæmis komnir í hlutverk Íkarusar, sem flaug of nálægt sólinni og hrapaði til jarðar. Einn beljakinn hét meira að segja Samson, eins og þessi í Biblíunni, og þegar síðast fréttist var bæði búið að skera af honum hárið og rýja hann inn að skinni.

Þá er ekki ólíklegt að undanfarin ár hafi mörgum liðið eins og Tantalusi, þeim sem stal ódáinsfæðu guðanna og dæmdist til eilífs hungurs - þjakaður af nálægð seðjandi berja og svalandi vatns, sem hann náði þó aldrei til. Almenningur horfði upp á veisluhöldin undanfarin ár og þótt sumir hafi komist í brauðmolana sem hrukku af borðunum, voru allsnægtirnar iðulega rétt utan seilingar.

Og ekki er nú herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti lýðveldisins, mikið betur settur. Nú staulast hann á milli vinnustaða - með siggrónar hendur og bólgin hné eftir að hafa klappað fyrir og hossað auðvaldinu árum saman - og stappar stálinu í launafólk. Gamli góði Atlas með heiminn á herðum sér. En í hamhleypunni Ólafi Ragnari rúmast tveir menn og eftir að hafa lesið við hann viðtal í vikunni kom ég auga á hver hinn var: „Þeir sem trúðu á þetta módel," sagði forsetinn um auðhyggjuna, „standa kannski í svipuðum sporum og þeir sem trúðu á kommúnismann hér áður fyrr og þurfa að endurskoða grunnhugmyndir sínar."

Hér talar fyrrverandi leiðtogi Alþýðubandalagsins sjálfsagt af sárri reynslu. Og nú er komið á daginn að tvo áratugi í röð þarf hann að horfa upp á heimsmynd sína og hugmyndakerfi hrynja til grunna; allaballi allaballanna var ekki fyrr búinn að klippa á tengslin við sósíalismann og binda trúss sitt við frjálshyggjuna áður en hún fór sömu leið. Er hér ekki Sýsifos lifandi kominn, sá sem bisast með steininn upp brekkuna til þess eins að horfa á hann velta aftur niður og byrja upp á nýtt.

Þetta er auðvitað þyngra en tárum taki, eins og vinsælt er að segja þessa dagana. En í kvöð Sýsifosar á Bessastöðum er framtíðarlausn okkar hinna fólgin. Ég legg til að við bíðum átekta og sjáum til hvaða hugmyndafræði Ólafur Ragnar Grímsson hallar sér að næst. Svo gerum við hið gagnstæða.

Birtist í Fréttablaðinu 17. október.

Tuesday, October 14, 2008

Elskulegir ljúflingar og alvörumenn

Sumir gera því skóna að lofrulla Kjartans Gunnarssonar um Davíð Oddsson í Morgunblaðinu hafi í raun verið hið eitraðasta háð. Ég held ekki, drápan hljómaði án efa sætlega í eyrum Davíðs.

Í bókinni Forsætisráðherrar Íslands skrifar Davíð Oddsson um Hannes Hafstein. Þar stendur meðal annars: "Hannes Hafstein var geðríkur, karlmannlegur ljúflingur ... jafnframt elskulegur fjörkálfur, fullur af húmor, lífsgleði og leik ... Og hann var viðkvæmur og samúðarfullur þátttakandi í annarra harmi ekki síður en sínum eigin."

Jakob F. Ásgeirsson var að sama skapi fengið að skrifa um Ólaf Thors. Þar stendur meðal annars: "Ólafur var karlmenni í lund og stór í sniðum. Hann var alvörumaður undir niðri en frægur fyrir gáska og hnyttin tilsvör. Hann þurfti oft að fá útrás fyrir sitt mikla skap en var fljótur að sættast. Sjálfur erfði hann ekki misgjörðir við menn. Hann skildi mannlegan breiskleika öðrum fremur. Hann var frjálslegur og djarfmannlegur í framgöngu en jafnframt hlýr og alúðlegur."

Svona skrifa sjálfstæðismenn af gamla skólanum einfaldlega um þá sem þeir hafa mætur á, fullkomlega blindir á mörk lofs og oflofs.

Wednesday, October 08, 2008

Til vopna

Ég kvíði ekki kreppunni. Það eina sem hún getur haft af mér eru peningar. Meðan ég á konu sem getur keypt notaðan skenk fyrir slikk og látið hann líta út fyrir að kosta tífalt meira gildir það einu. Komdu kreppa, ef þú þorir. Við bíðum átekta. Með lakkdollu og pensil.

Steinn

Eftir að hafa horft á Kiljuna í kvöld situr eitt eftir: Hvað lögin sem samin hafa verið við ljóð Steins Steinars eru keimlík og leiðinleg.

Tuesday, October 07, 2008

Karl í pels

Ró minni var raskað á dögunum. Ég sat í góðu næði á kaffihúsi í miðborginni þegar framhjá gekk maður úr tiltölulega nýrri stétt íslenskra broddborgara, klæddur í pels. Til er að minnsta kosti einn óbrigðull mælikvarði á hvenær menn hafa eignast of mikla peninga: karl í pels.

Þetta stílbrot þurfti í sjálfu sér ekki að koma mikið á óvart. Síaukið ríkidæmi undanfarið á sér ekki fordæmi hér á landi og af glans- og slúðurblöðunum íslensku að dæma finnst hinum ríku fátt flottara en að klæðast jakkafötum sem líta út eins og brjóstsykur. Það er að minnsta kosti auðvelt að hrapa að þeirri ályktun að brogaður smekkur sé einn af fylgifiskum þess að vera ríkur.

Fjölmörg teikn bentu til hvert stefndi. Einhver borgaði milljónir króna fyrir að lesa veðurfréttir á NFS (sú spá hefur enn ekki verið flutt svo ég viti til) og annar greiddi tugi milljóna fyrir ómálað málverk. Það var því aðeins tímaspursmál hvenær karlar skrýddir minkaskinni færu að spígspora um Laugaveginn.

Í bjartsýniskasti lét ég hins vegar öll aðvörunarmerki sem vind um eyru þjóta, rýndi í efnahagshorfur í gegnum tískugleraugun og leitaði logandi ljósi að dæmum til að styrkja málstað minn. Með því að hámarka – jafnvel ýkja – líkur á verðbólguskoti, samdrætti og ofhitnun í hagkerfinu tókst mér smám saman að telja mér trú um að íslenskir karlar myndu ekki byrja að ganga í pelsum fyrr en í fyrsta lagi árið 2010, jafnvel 2011 ef heppnin væri með mér.

Þar sem ég stóð andspænis pelsklædda auðkýfingnum leið mér eins og ég hefði fengið blauta tusku í andlitið. Það hafði gerst. Öskju Pandóru hafði verið lokið upp og ekki einu sinni vonin eftir á botninum. Tískan vinnur sig niður á við og það er ekki lengur spurning um hvort heldur hvenær óbreyttir alþýðumenn verða álitnir umrenningar nema þeir séu líka í frakka gerðum úr mink, ref, kanínu eða safala.

Ég held þó enn í vonina um að þurfa ekki að heimsækja feldskerann alveg strax. Á hinn bóginn er þetta kannski bara spurning um að ganga alla leið. Kaupa snekkju og láta brenna sig í pelsinum að víkingasið þegar þetta er allt saman búið.

Birtist í Fréttablaðinu 18. júní 2006.

Monday, October 06, 2008

Kanada 2007



Þessa mynd tók ég með kámugri linsu í Winnipeg, þegar Landsbankinn opnaði þar skrifstofu vorið 2007. Segið svo að ég hafi ekki tekið þátt í útrásinni.

Fólk með einhver áform...

Ljóð segja satt. Að minnsta kosti þegar vel tekst til. Tökum dæmi:

Það er sem átti að vera
þægileg lífslygi
reyndist alveg satt
og frekar óþægilegt


Ég kolféll fyrir þessum ljóðlínum Þórarins Eldjárns, þegar ég las Fjöllin verða að duga í fyrra; finnst þær fanga þann tíðaranda sem ég upplifi nær fullkomlega.

Að sama skapi er Síðasta kvöldið eftir Sigurð Pálsson afskaplega viðeigandi núna, réttum tuttugu árum eftir að það kom fyrst út:

Æ þessar frómu óskir
Fráleitu vonir
Að allt stæði kyrrt
Einmitt þetta kvöld
Að hugurinn stæði kyrr

Utan við hótelgluggann
Þung umferð við ferhyrnt torg
Fólk á svonefndum ferli
Og stjákli
Og bíðandi
Fólk með sig og sína
Fólk með einhver áform
Að því er virtist
Fólk...

Í sjónvarpinu knattspyrna
Sögur og fólk í framhaldsflokkum
Mannkynssagan í framvindu
Í fréttatímum

...og hann hafði vonað
að allt stæði kyrrt
einmitt þetta kvöld...

Æ þessar frómu
Hinstu óskir
Fráleitu vonir
Að lífið gæfist upp
Fyrirhafnarlaust


Ætli Geir lesi ljóð?

Friday, October 03, 2008

Gjörið svo vel

Hingað til hefur verið um það þegjandi sátt að Seðlabanki Íslands sé hinn pólitíski súr sem fullnýttir stjórnmálamenn eru lagðir í og geymdir aftast í búrinu. Nú hefur hins vegar einn sláturkeppurinn í troginu talið sér trú um að hann sé jafn ferskur og meyr lund af nýslátruðu ungnauti, ýtt norska hamborgarhryggnum til hliðar og sett sjálfan sig efst á matseðil íslenskra stjórnmála.

Nýjasti rétturinn á seðlinum er eldsteikt hagkerfi. Uppskriftin er einföld. Takið knippi af lítt þroskuðum kaupsýslumönnum og setjið í stórt fat. Þótt kjötið sé siðferðislega rýrt – og þar af leiðandi ekki of sætt – er það hins vegar nokkuð ofalið og feitt. Berjið það hraustlega með kjöthamri þar til útblásið stoltið er orðið hæfilega marið.

Ausið nokkrum vel völdum, beiskum ummælum yfir kjötið. Ef óbragðið af fúkyrðaflaumnum er of sterkt, útvatnið þá með marklausu bjartsýnishjali. Veltið svo hráefninu upp úr eggi og niðurrifnum krónuspæni. Til að steikingin heppnist sem best er mikilvægt að ná öllum safa úr kjötinu. Hækkið því stýrivexti upp úr öllu valdi, þannig að hitni rækilega undir fleskinu, og látið malla þar til eigið fé seytlar úr hverri útrás og gufar upp. Stráið maldon-salti í góðærissárin og þjóðnýtið.

Athugið að besta kjötið er af skrokkum sem er búið að berja þar til þeir verða bláir. Tilvalið er að stinga rauðu epli í munn þeirra – sérstaklega ef þeir eru með eitthvert múður – og ekki verra ef hægt er verða sér úti um vinstri grænar baunir og Brúnastaðasósu til að hella yfir.

Leggið á borð fyrir fimm manna þjóðstjórn. Skerið kjötið í þykkar sneiðar. Ekki hirða um óþarfa prjál á borð við hnífapör, afsakið samtíninginn og takið til matar ykkar með berum höndum. Graðgið í ykkur þessa dýrustu flottræflakrás sem borin hefur verið fram; leifið engu, bryðjið bæði sinar og bein; kýlið út vömbina eins og þetta sé ykkar síðasta máltíð; sleikið diskinn þegar þið eruð búin og látið meltingarkerfinu eftir framhaldið.

Flytjið ykkur yfir í betri stofuna, stangið úr tönnunum og fáið ykkur kaffi og koníak. Gefið ykkur tíma til að láta sjatna í ykkur, hallið ykkur aftur í sófanum, hneppið frá efstu buxnatölunni og setjið fætur upp á borð. Slakið á. Almenningur sér um uppvaskið.

Birtist í Fréttablaðinu 3. október.

Wednesday, October 01, 2008

Margir möguleikar

Eyjan er með puttana á púlsinum, eins og lesa má í þessu viðtali við Erp Eyvindarson. Þar segir meðal annars: "Erpur Eyvindarson, sem notar listamannsnafnið Blazroca þegar hann rappar, ætlar að senda frá sér sína fyrstu sólóplötu á næstu misserum. Nákvæmlega hvenær er ekki ljóst enda margir möguleikar í boði þegar það kemur að útgáfumálum." Já, þar engu logið - alveg heilir 365 dagar á ári.