Tuesday, June 12, 2007

Laugardagur

Undanfarnar vikur og mánuði hef ég, með hléum, verið að þræla mér í gegnum Laugardag eftir Ian McEwan. Ég er líklega ekki nógu miðaldra. Ætti kannski að geyma hana í tuttugu ár eða svo og byrja að æfa skvass í millitíðinni.

Svona til að segja eitthvað

Frekar þann versta en næstbesta
Ég hef ekki áhuga á fótbolta. Kannski helgast áhugaleysi mitt af því að ég er alinn upp í sjávarþorpi og liðið sem ég lék með var frekar lélegt. Meistaraflokkurinn var að minnsta kosti ekki eftirsóknarverð fyrirmynd fyrir okkur púkana í yngri flokkunum. Velgengni þeirra á héraðsmótum réðst aðallega af tvennu: a) yrðu nógu margir leikmenn í landi til að fullmanna liðið og b) yrðu þeir allsgáðir?

Þótt mér finnist lítið til fótbolta koma uni ég öðrum auðvitað að hafa gaman af íþróttinni. Fyrir mörgum er þetta ástríða, sem er ástæðulaust að gera lítið úr, að minnsta kosti þegar íslensk knattspyrna á í hlut. Mér finnst eðlilegra að menn séu eldheitir stuðningsmenn hverfisliðsins síns frekar en einhverra liða úr breskum krummaskuðum, jafnvel þótt knattspyrnan sem slík standist ekki samanburð. Menn halda þó með liði sem er sannarlega þeirra. Sumir myndu frekar halda með versta liðinu á Íslandi en því næstbesta á Englandi. Það ber að virða.

Á dagskrá Sjónvarpsins er þáttur sem fjallar um íslenskan fótbolta og ber heitið 14-2. Hvers vegna íþróttadeild RÚV kýs að skírskota til sennilega mestu niðurlægingu íslenskrar íþróttasögu veit ég ekki. Er einhver sérstök ástæða fyrir því að menn vilja ganga úr skugga um að enginn gleymi að í alþjóðlegum samanburði er íslensk knattspyrna ekki upp á marga fiska?

Þetta býður annars upp á nokkra möguleika, sem ég býst fastlega við að RÚV ohf. nýti sér. Ég býð til dæmis spenntur eftir skíðaþættinum Fallinn úr keppni; handboltaþættinum Dottnir úr leik; og síðast en ekki síst kraftlyftingaþættinum Keppnisbann.

Birtist í Fréttablaðinu 7. júní.

Monday, June 11, 2007

Nálægð

Mér stendur stuggur af náriðlum. Þeir vaða uppi á netinu þessa dagana.