Tuesday, February 24, 2009

Eiður gegn Nirði

Eiður S. Guðnason, fyrrverandi sendiherra og áhugamaður um vandað mál, vekur athygli á þeim sóðaskap sem stafar af skítugum, tættum plastborðum á ljósastaurum milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Eiði skilst að samtökin Nýtt lýðveldi hafi komið borðunum fyrir. Hann skrifar: Sé það rétt að þessi samtök beri ábyrgð á þessum umhverfissóðaskap ættu þau að sjá sóma sinn í fjarlægja þessar plastslitrur sem nú flygsast í vindinum. Varla ætlast þau til að bæjarstarfsmenn hreinsi þetta á kostnað skattborgara, - eða hvað?

Svo skemmtilega vill til að forsprakki Nýs lýðveldis er annar áhugamaður um málvernd, sjálfur Njörður P. Njarðvík. Ólíklegt er að Njörður sitji þegjandi undir ákúrum Eiðs. Hér stefnir í ritdeilu - á gullaldarmáli.

Vafasamur heiður?

Blaðamannaverðlaun Íslands voru afhent um síðustu helgi. Verðlaun voru veitt í þremur flokkum. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir hlaut blaðamannaverðlaun ársins fyrir störf sín á mbl.is; umfjöllun Ragnars Axelssonar og Önundar Páls Ragnarssonar um virkjunarkosti á Íslandi var valin besta umfjöllun ársins; og verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins féllu Sigurjóni M. Egilssyni á Mannlífi í té.
Sigurvegurunum óska ég til hamingju, þeir eru án efa vel að heiðrinum komnir.

Eitt hnaut ég hins vegar um sem ég tel ástæðu til að gera athugasemd við, það er umsögn dómnefndar um rannsóknarblaðamennsku ársins. Hún er á þessa leið:

Rannsóknarblaðamennska ársins 2008
Sigurjón M. Egilsson, Mannlífi og Bylgjunni, fyrir vandaðar og ítarlegar greinar um íslenskt efnahagsástand í Mannlífi, þar sem mál voru krufin með ítarlegri hætti en títt er í íslenskum fjölmiðlum. Samhliða stýrði Sigurjón útvarsþætti á Bylgjunni, þar sem íslensk þjóðmál voru í brennidepli.

Umfjöllun Sigurjóns M. Egilssonar í Mannlífi um íslensk efnahagsmál vakti talsverða athygli strax á fyrri hluta ársins 2008 fyrir þær grundvallarspurningar sem þar voru rannsakaðar og leitað svara við, m.a. varðandi bankakerfið og peningamálastefnu stjórnvalda. Umfjöllunin er þó ekki síður athyglisverð í ljósi þess sem síðar gerðist, enda var þar með ítarlegum og gagnrýnum hætti farið inn á fjölmarga þætti sem ótvírætt eru mikilvægir orsakavaldar [sic] í bankahruninu mikla. Í greinaflokkum sínum kafaði Sigurjón ofan í málin og dró fram sjónarmið fjölda fólks, stjórnmálamanna, sérfræðinga og hagsmunaaðila og greindi hver áhrifin voru af efnahags- og peningastefnunni og hverjar hættur voru yfirvofandi. Til viðbótar skrifum um þessi mál í Mannlífi tók Sigurjón ýmsa þætti þessarar umfjöllunar upp á vettvangi útvarpsþáttarins Sprengisands á Bylgjunni, sem hann hefur séð um.“

Takið eftir að í umsögninni er hamrað á því hveru ítarlegar greinar Sigurjóns voru, í þeim hafi verið leitast við að svara grundvallarspurningum, áhrif af efnahags- og peningastefnunni greind og þar fram eftir götunum. Aftur á móti er ekki einu orði vikið að því hvað þessar greinar leiddu í ljós. Fann dómnefndin virkilega ekki eitt einasta dæmi um fréttnæmar niðurstöður í „rannsóknarblaðamennsku ársins“? Getur það verið?

Rökstuðning dómnefndar, eins og hann er settur fram, má skilja sem svo að hún telji lítið púður hafa verið í rannsóknarblaðamennsku ársins; hún hafi verið umfangsmikil en litlu skilað. Ef einhver annar en Blaðamannafélag Íslands stæði að þessum verðlaunum mætti túlka umsögnina sem beinskeytta (réttmæta?) gagnrýni á íslenska fjölmiðla. Sú held ég að sé þó ekki raunin, heldur er þetta einfaldlega dæmi um hroðvirknisleg vinnubrögð.

Dómnefndin hefur kastað til höndunum annað hvort þegar hún valdi verðlaunahafann eða þegar hún rökstuddi álit sitt. Ég vil láta sme njóta vafans og gefa mér að það hafi verið hið síðarnefnda. Mér þykir Blaðamannafélag Íslands satt best að segja sýna Sigurjóni lítinn sóma með því að veita honum verðlaun á grundvelli þeirrar moðsuðu sem rökstuðningurinn er. Handarbaksvinnubrögð af þessum toga eru heldur ekki til þess fallin að auka tiltrú á Blaðamannaverðlaunum Blaðamannafélags Íslands.

Wednesday, February 18, 2009

Ef Idoldómarinn væri stjórnmálamaður....

... væri hann búinn að senda frá sér yfirlýsingu þar sem hann harmaði að verið væri að gera eiturlyfjaviðskipti sín tortryggileg.

Thursday, February 12, 2009

Ótrúleg endurkoma

Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því að handboltamaðurinn Freyr Brynjarsson hafi verið valinn besti leikmaður N1 deildarinnar í umferðum 8-14. Þetta má teljast stóðrgóður árangur, því eins og kemur fram í greininni lagði Freyr skóna á hilluna á sínum tíma:

"Freyr er uppalinn Valsmaður en hætti að spila með þeim fyrir nokkrum árum. Hann hætti reyndar að spila handbolta í stuttan tíma í kjölfarið en var fljótur að snúa til baka.
"Þannig var mál með vexti að ég flutti til Grindavíkur þar sem mér bauðst vinna. Ég vildi þrátt fyrir það halda áfram að spila með Val en Valsmenn voru ekki tilbúnir að koma eins mikið til móts við mig og ég taldi vera eðlilegt. Úr varð að ég hætti að spila með Valsmönnum og hætti í handbolta í tvær vikur.""

Þetta er ótrúleg endurkoma hjá Frey og sýnir að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Pólitískir hagsmunir að leggja niður Kompás?

Í dálknum Af listum í Morgunblaðinu fjallar Jóhann Bjarni Kolbeinsson blaðamaður um þá ákvörðun Stöðvar tvö að leggja niður fréttaþáttinn Kompás. Jóhann Bjarni sér eftir þættinum, sem vonlegt er; umfjallanir Kompáss voru oft mjög áhugaverðar. Jóhanni Bjarna finnst undarlegt að Stöð tvö hafi lagt niður Kompás og segir: "Líklegt má þó telja að pólitík hafi eitthvað með þá ákvörðun að gera."

Hvað á Jóhann Kolbeinn við? Hvers vegna er líklegt að pólitík hafi haft eitthvað með það að gera? Hvaða pólitískum hagsmunum þjónar það að leggja Kompás niður?

Tuesday, February 10, 2009

Skólabræður = starfsbræður

"Skólabróðir Geirs Haarde verður fulltrúi AGS hér á Íslandi," segir hér. Önnur gild fyrirsögn hefði verið: Skólabróðir Geirs Haarde fær gamla starfið hans á Íslandi.

Ólíkar áherslur

Frétt á Vísi: Davíð forðaði sér á stökki.

Frétt á Mbl.is: Davíð skaut mótmælendum ref fyrir rass.

Monday, February 09, 2009

Sjálfstætt skítkast

Landssamband lögreglumanna sendir frá sér ályktun um Búsáhaldabyltinguna. Þar segir meðal annars:
"Það ástand sem ríkti í Reykjavík þá daga sem svokölluð „Búsáhaldabylting” stóð yfir var grafalvarlegt. Í þeim mótmælum sem áttu sér stað utan við Alþingi Íslendinga þar sem réttkjörið Þjóðþing Íslendinga var að störfum, sem og við Stjórnarráðið, skrifstofur réttskipaðs forsætisráðherra landsins urðu lögreglumenn fyrir grjót-, eggja- saur- og þvagkasti, svo eitthvað sé nefnt, hluta þeirra Íslendinga sem þar mótmæltu. Sú framkoma, sem sá hluti mótmælenda sýndi af sér er stóð í slíku, er ekki einvörðungu vanvirða við það þjóðskipulag sem hér ríkir heldur að auki aðför að lýðræði og sjálfstæði þjóðarinnar."

Ekki dettur mér í hug að verja þá sem köstuðu grjóti, saur eða hlandi í lögregluna. En hvernig kemst Landssamband lögreglunnar að þeirri niðurstöðu að það hafi stofnað sjálfstæði þjóðarinnar í voða?

Sunday, February 08, 2009

Hryðjuverka- og umsáturslögum beitt gegn mótmælendum

Vefritið Nei birtir íslenska þýðingu á grein í Guardian um hvernig hryðjuverkalögum er beitt í sívaxandi mæli til að taka á mótmælendum. Hér er önnur grein af Guardian, eftir George Monbiot, um hvernig lög, sem sett voru til að vernda fórnarlömb umseta (e. "stalkers", skárri þýðingu hef ég ekki heyrt) eru nú notuð til að klekkja á mótmælendum.