Monday, November 27, 2006

Öddi

Af þessu bloggi að dæma gætu þeir sem mig ekki þekkja hrapað að þeirri ályktun að ég sé maður fárra orða. Sem er ekki reyndin.

Bærinn minn kemst á lista yfir mestu krummaskuð landsins í úttekt sem vinnustaður minn gerði. Það hryggir mig að uppeldisstöðvar mínar skuli fá mínus í kladdann hjá jafn frómu fólki og Betu rokk.

Í nótt dreymdi mig skrýtinn draum; í honum átti ég í ástarsambandi við eldri systur bekkjarbróður míns úr grunnskóla. Ég hef ekkert samneyti við þessa konu, sem er tæpum tíu árum eldri en ég (og vissulega bráðlagleg) og ber engar meðvitaðar kenndir til hennar. Hið skrýtna var aftur á móti að í draumnum hafði hún unnið sér það til frægðar að leika burðarrullu í Waynes World 2.

Maður sem ég er málkunnugur kýs að túlka flesta drauma sem ödipusarduld.

Wednesday, November 22, 2006

You said it

Should I bolt every time I get that feeling in my gut when I meet someone new? Well, I’ve been listening to my gut since I was 14 years old, and frankly speaking, I’ve come to the conclusion that my guts have shit for brains.

Rob Gordon. Úr High Fidelity.

Saturday, November 18, 2006

Einhvers konar ég

Í dag er ég í jakka sem ég ekki klæðst síðan 2. september síðastliðinn. Hvernig man ég það? Ég geri það ekki; í innanávasanum var strimill frá Bónus á Laugavegi og dagsetningin þar er einmitt 02.09.06. Þetta er langur strimill og ég varð var við hann um leið og ég fór í jakkann. Hefði ég farið í hann eftir þetta skipti hefði ég að öllum líkindum fjarlægt strimilinn úr vasanum og jafnvel hent.

Á strimlinum kennir ýmissa grasa. Þar má sjá að þennan dag keypti ég meðal annars snakk frá Maarud (sem segir mér að Siggi Elí hafi verið með í för), ananasmauk (sem ég á ennþá), lasagna frá Knorr, hollenskan blaðlauk, sveppi í lausu (eða sveppa eins og mér eldra fólk segir stundum), danskar kjúklingabringur, pasta frá Barilla, lítinn brauðost, rauð, steinlaus vínber, lýsi (á flöskuna ennþá), léttmjólk, maís, túnfisk og tómata í dós, tannþráð frá tannþráðaframleiðandandum Reach, rjómaost með kryddblöndu, gulrætur frá Akri, skinku, Colgate tannbursta, lauk, rauðlauk, hvítlauk, kaffirjóma, íslenska papriku, appelsínusafa, sex brún egg og tvo gula plastpoka. Þetta seldi mér maður að nafni Snorri, á kassa númer eitt, þegar klukkan var að ganga sautján mínútur í sjö og lét mig borga 6.796 krónur (sumar vörur voru á afslætti).

Greinilega völlur á mér þennan dag.


[Þessari færslu eyddi ég fyrir slysni, en hafði upp á henni á Google og birti aftur.]

Thursday, November 16, 2006

Friedmann allur

Tilvist Miltons Friedmann mætti svo lítilli eftirspurn að æðri máttarvöld ákváðu í dag að taka hana af markaði.