Wednesday, September 27, 2006

Uff

Æ æ æ...ekki syngja Öxar við ána eða halda ræðu í bundnu máli eða höfða til þjóðerniskenndar eða láta presta tala um Kárahnjúka sem drottins sköpunarverk.... æi ekki... mig langar svo til að halda með ykkur, plísplísplís allt nema þetta! Ég fékk blóðnasir yfir sjónvarpsútsendingunni í gær.
Hvað skyldum við vera búin að eiga marga menn ársins í ár? Andra Snær, Magna og nú Ómar. Eiður Smári í kommóðsskúffunni, til vara ef annað skyldi klikka.

Orðið graðga, í merkingunni að háma eitthvað í sig - borða óhóflega (t.d. hann graðgaði bjúgunum í sig), var fyrir löngu orðið partur af málvitund minni og málvitund mín er stór partur af heimssýn minni. Sú heimssýn breyttist í dag þegar borubrattur prófarkalesari lýsti því yfir að þetta orð væri hvergi að finna íslenskum orðabókum. Fuck it, sagði ég. Heimurinn rúmast ekki í orðabók og ef tungumálið endurspeglar heiminn rúmast það varla í orðabók heldur. Þeir keyptu það ekki. Um daginn reyndu delarnir í próförk að bera brigður á orðið afskeiðisflan. Sigri hrósandi sendi ég þá sneypta til baka.

Skyndilega þurfum við ekki lengur sýnilegar varnir. Það er ábyggilega erfitt að éta ofan í sig fjórar orrustuþotur, ég myndi að minnsta kosti skola þeim niður með malti upp á meltinguna gera. Hins vegar er lágmark að við fáum okkur risastóran límmiða og setjum á suðvesturhornið: This country is protected by the United states of America.

Sunday, September 24, 2006

ID4

Áætlunum um að verja laugardagskvöldinu fyrir framan sjónvarpið og taka svo á sig náðir var raskað af dagskrá Stöðvar tvö. Independence Day gat ekki verið síðasta lífsreynsla mín fyrir háttinn og ég hélt því út á galeiðuna. Byrjunin lofaði ekki góðu en það rættist heldur betur úr kvöldinu; ég held ég hafi átt að minnsta kosti fjögur innileg og skemmtileg samtöl við greint og heillandi fólk. Það er góð kvöldstund. Og ég á hana Bill Pullman óbeint að þakka.

Wednesday, September 20, 2006

Opinberun

Ég tók til heima hjá mér um daginn; raðaði í hillur, skúraði gólf og dustaði ryk. Og viti menn, bakvið sófann fann ég guð.

Tuesday, September 19, 2006

Það þarf að gera eitthvað!

Góðir fréttamenn eru lunknir við að setja hlutina í samhengi fyrir áhorfendur, til dæmis hversu marga lítra af mjólk megi kaupa fyrir tekjuafgang ríkissjóðs og þar fram eftir götunum. Í spjalli Hallgríms Thorsteinssonar við Róbert Marshall á NFS í gær, kom í ljós að sá fyrrnefndi hafði þreifað á þjóðarpúlsinum og komist að, með óyggjandi hætti, að það þyrfti að kynna NFS miklu betur. "Ég er enn að hitta fólk sem heldur að ég sé í útvarpi," sagði Hallgrímur og fórnaði höndum. Já, ljótt er að heyra.

Monday, September 18, 2006

Fjárhættuspil

Nick Cave var hreint afbragð, um það þarf ekki að hafa fleiri orð.

Við Sigurður Elí uppgötvuðum að kaffihúsaferðir öðlast nýja vídd ef spilastokkur er við höndina. Siggi hefur yfirleitt betur. Hann styðst reyndar við nýstárlegri og sveigjanlegri reglur en ég er vanur. Ég ætla alltént ekki spila upp á pening við hann.

Sunday, September 17, 2006

Bisness hugmynd

Bergsteinn legsteinn. Leggst einn inn - leggst einn út.

Er að spá í að kveða mér hljóðs í útfararþjónustrubransanum, þar er aldrei samdráttur.

Tuesday, September 12, 2006

And now for something completely different...

Kastljós hefur ákveðið að fagna eins árs afmæli með því að endurtaka úttekt sína á störfum lögreglumanna frá síðasta hausti. Persónulega finnst mér verið að bera í bakkafullan lækinn en það er auðvitað smekksatriði.

Annað smekksatriði er hversu góð hugmynd það er að vinda sér beint úr viðtali við dreng, sem heilaskaddaðist eftir ofsaakstur, yfir í umfjöllun um heimsmeistarakeppnina í jójó. Um að gera að hafa dagskrána fjölbreytta og allt það en anticlimaxið í þessari knöppu skiptingu var fullmikið fyrir þann sem þetta skrifar.

Thursday, September 07, 2006

Allt eins og blómstrið eina

Benedikt S. Lafleur fjöllistamaður, sem ætlaði að synda yfir Ermasund, gafst upp á miðri leið. Hann ætlar að reyna aftur að ári. Þangað til heldur mansal áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Monday, September 04, 2006

Hvað myndir þú gera?

Við Siggi Elí drifum okkur í bíó á sunnudag og sáum Over the Hedge. Skemmst er frá því að segja að þetta var ágæt skemmtun, myndin leið hratt, poppið bragðaðist vel og krakkarnir voru til friðs. Hins vegar vakti athygli mína auglýsing fyrir tónleika Blood Hound Gang í kvöld, þar sem söngvari hljómsveitarinnar klykkti út með hinni frómu spurningu: "Would you fuck me for blow?"

Nú er mér slétt sama þótt fullveðja og upplýstir gestir Sambíóanna séu spurðir þessarar áleitnu siðferðislegu spurningar í upphafi myndar - hver veit nema þeir komist að einhverju um sjálfa sig í kjölfarið? Að sýna þessa auglýsingu á undan barnasýningu klukkan tvö á sunnudegi, finnst mér aftur á móti heldur verra. Jafnvel mætti taka svo djúpt á árinni að kalla það ... óheppilegt.

Saturday, September 02, 2006

Bjólfahrollur

Ég fór á Bjólfskviðu á fimmtudag. Um þá upplifun mátti lesa í Fréttablaðinu í gær en ég læt hana líka fljóta hér:

Deigur hnífur
Það kostaði augljóslega mikla vinnu að gera Bjólfskviðu enda hafði Gerald Butler, aðalleikari myndarinnar, á orði áður en myndin var frumsýnd í Háskólabíói að hann hefði ekki kynnst öðru eins veðravíti og meðan tökur stóðu yfir. Mesta afrekið hefði verið fólgið í því að þrátt fyrir allt hefði að endingu tekist að koma Bjólfi alla leið á hvíta tjaldið.
Butler hefur rétt fyrir sér - miðað við aðstæður var það heil­mikið afrek að koma tröllabananum Bjólfi á koppinn en fyrir annað fær Bjólfskviða lítið hrós. Fyrst má nefna að myndin ber þess augljós merki að vera gerð af van­efnum. Helsti gallinn er hins vegar hversu yfirmáta hallærisleg hún er um leið og hún vill láta taka sig alvarlega. Söguframvindan er langdregin, bardagaatriðin kauðsleg og samtölin vandræðaleg. Við leikarana er ekki að sakast, þeir hafa einfaldlega ekki úr neinu að moða. Gerald Butler er sæmilega sjarmerandi og getur sjálfsagt borið uppi vel skrifaða mynd en í Bjólfskviðu þarf hann að láta sér nægja að troða marvaðann. Fórnarlamb myndarinnar er tvímælalaust gæðaleikarinn Ingvar E. Sigurðsson í hlutverki tröllsins Grendils; á köflum er átakanlegt að horfa á hann gólandi á fjallshæð í loðnum vöðvabúningi. Allar tilraunir til að ljá persónunni - og sögunni - dýpt og mannlega hlýju falla kylliflatar.
Mögulega má markaðssetja myndina út á íslenska landslagið en á heimamann virkar náttúrusukkið yfirþyrmandi. Á framleiðslunni er ekki að sjá að rúm tuttugu ár séu liðin síðan Hrafninn flýgur var gerð og á heildina litið verður Bjólfskviða að teljast vonbrigði.

Æðibunugangur

Jæja, skyldi síðasta færsla hafa verið frumhlaup? Vei mér fáfróðum manni, svo fullum af heilagri reiði.

Í dag var ég beðinn að aðstoða við að reisa steinsteyptan Krist á krossi sínum upp við vegg í Kling og Bang. Upp fór hann en þetta hefur verið meira vesen en ég hef hingað til gert mér grein fyrir, þarna á Golgata-hæð fyrir röskum tvö þúsund árum.