Thursday, January 08, 2009

Útrás undir nýjum formerkjum

Eftir bankahrunið heimtuðu margir að auðmennirnir kæmu heim og stæðu fyrir máli sínu. Þeir sem orðið hafa við þeirri kröfu hafa allir uppskorið sömu viðbrögð: Hvað ert þú að vilja upp á dekk?

Síðastur til að láta sig falla á sverð almenningsálitsins í beinni útsendingu var Bjarni Ármannsson. Bjarni hafði greinilega stúderað frammistöðu kollega sinna og tekið eftir að það er ekki líklegt til vinsælda að bera sig borginmannlega, hafna ábyrgð og skella skuldinni á óráðsíðu stjórnvalda. Bjarni ákvað því berja sér á brjóst og þvert á móti játa sekt sína, og auk þess verða við kröfu um að auðmenn skili peningunum. Allt kom fyrir ekki, Bjarni uppsker sömu skammirnar og hinir og er sakaður um að reyna að kaupa sig undan ábyrgð ofan á allt annað.

Orrustan um lýðhylli er fyrirfram töpuð og þeim sem mæta er í sjálfvald sett hvort þeir vilja falla í valinn með sjálfbirgingslegt glott á vör eða iðrunarsvip, það kemur út á eitt. Enginn hefur nokkurn áhuga á uppgjöri við þessa menn. Sama hversu hreint þeir gera fyrir sínum dyrum, hversu marga asna nágranna sinna þeir játa að hafa ásælst, verða auðjöfrarnir ekki teknir í sátt í bráð. Skiljanlega. Sjónvarpsviðtölin eru ekki tilefni til sátta heldur nýtast okkur sem sitjum eftir í rústunum sem átylla til að setja ofan í við burgeisana í lesendabréfum eða uppnefna þá á bloggsíðum, gjarnan með hástöfum.

Það felst fróun í því að fá útrás fyrir reiði sína og sjálfsagt ekki nema viðeigandi að einmitt þeir sem stýrðu galeiðunni – undir dynjandi bumbuslætti og með okkur við árarnar – að hinum efnahagslega feigðarósi, taki að sér að veita reiði almennings í ákveðinn farveg; beini henni að sér um stundarsakir. Þetta er sú útrás sem ófáir Íslendingar þurfa á að halda núna. Útrásarvíkingarnir standa þannig kannski enn undir nafni eftir allt saman – á öðrum forsendum þó.

Birtist í Fréttablaðinu 7. janúar.

Tuesday, January 06, 2009

Bjarni og Yarisinn

Páll Ásgeir Ásgeirsson er snjall í að setja hlutina í skiljanlegt samhengi, til dæmis dregur hann þá ályktun að þær 370 milljónir sem Bjarni Ármannsson endurgreiddi Glitni jafngildi því að ómenntaður skúringarmaður kaupi sér árs gamlan Yaris.

En ætti samlíkingin ekki frekar að vera á þá leið að ómenntaður skúringamaður ekur á gangandi vegfaranda, með þeim afleiðingum að hann bíður varanleg örkuml, og býður honum Yaris í miskabætur?