Wednesday, August 30, 2006

Hneisa

Sjálfstæðisflokkurinn tók af öll tvímæli í dag að hann er öðrum fremri í þeirri list að redda vinum sínum. Héðan í frá er Árni Johnsen með óflekkað mannorð. Ég legg til að eftirfarandi klausu verði bætt við lög og reglur um kjörgengi: Undanþegnir eru þeir sem setið hafa á þingi og langar þangað aftur.
Skiptir virkilega engu máli að það eru ekki nema þrú ár - innan við kjörtímabil - liðin síðan Árni var fundinn sekur um fjárdrátt, mútuþægni og umboðssvik í opinberu starfi? Jújú, auðvitað hefur hann "greitt sína sekt við samfélagið" - einsog stundum er sagt - með fangavist sinni. En ef hver sá sem hefur afplánað refsingu á að halda kjörgengi sínu, ættu lögin einfaldlega að kveða á um það. Það gera þau ekki.
Það glórulausasta við þetta mál allt saman er að Árni braut af sér í skjóli þess að hann gegndi opinberu embætti. Að hreinsa sakavottorð hans í þeim eina tilgangi að gefa honum tækifæri til að gegna því embætti aftur, er ömurlegt.

Nú er bara að bíða spenntur og sjá hvort einhver réttlátur flokksfélagi Árna leggi ekki fram frumvarp sem miðar að því að lengja ævi hans um þann tíma sem hann þurfti að dúsa inni.

Monday, August 28, 2006

Carandiru

Þeim sem vilja fá nasasjón af því hvernig mögulega er komið fyrir hinum ógæfusama Hlyni Má Sigurðssyni í Brasilíu, er bent á þessa mynd, sem gerist einmitt í fangelsi þar í landi. Byggt á sannsögulegum atburðum þegar þegar fangar í hinu illræmda fangelsi Carandiru gerðu uppreisn með þeim afleiðingum að lögreglan felldi rúmlega hundrað þeirra.

Fyrsti dagur í nýrri vinnnu

Eða þannig líður mér alltént. Merkilegt hvað gamalgróinn vinnustaður getur virst framandi eftir mánaðarhlé.

Tuesday, August 22, 2006

Peugot til sölu

Ég ætla að selja Peugot-inn. Hef þegar fengið tvö tilboð frá Hringrás og Vöku. Bæði hljóða upp á fimmtán þúsund krónur og því duttlungum háð hver hreppir hnossið. Ég hallast heldur að Hringrás því þangað er styttra.

Grái Peugot-inn er sannarlega ekki falleg bifreið, né sérstaklega þægileg. Stærsti gallinn er sjálfsagt miðstöðin, sem lekur eitruðum loftegundum úr pústkerfinu inn í bílinn. Það er mér sagt að sé óhollt. Hann hefur hins vegar þjónað sínu hlutverki í rúmt ár, með hléum vegna bilana, en nú er mál að linni.

Í fyrra komst sá kvittur á kreik að auðkýfingur væri í röðum blaðamanna 365. DV sendi vitaskuld sína bestu syni út af örkinni til að hafa upp á milljónamæringnum og einhverra hluta vegna beindist grunurinn að mér. Kristján Hjálmarsson, sonur Framsóknarflokksins, lagði reyndar sitt af mörkum með því að auglýsa mig sem "kvótaerfingja að vestan". Sjálfsagt hefði ég endað á forsíðu blaðsins undir fjálglegri fyrirögn, hefðu DV-ingar ekki séð mig renna í hlað á Peugot-inum, því milljónamæringur hefði ekki látið sjá sig dauðan í þessum bíl.

Á Kaffitári

Tilraunir mínar til að þagga niður í fólki á nærliggjandi borðum bera engan árangur. Þegar fólk talar ýmist of hátt eða um hluti sem mér leiðist á meðan ég reyni að einbeita mér, gef ég því illt auga. Ekkert gerist. Annað hvort hef ég svona litla nærveru eða guð er að refsa mér fyrir að tala of hátt um leiðinlega hluti í námunda við fólk sem er að reyna einbeita sér.

Monday, August 21, 2006

Selárdalur og Miami Vice

Við Sigurður Elí vorum fjarri góðu gamni á Menningarnótt en þar sem við vildum ekki vera neinir eftirbátar höfuðborgarbúa, fórum við í Selárdal í Arnarfirði og virtum fyrir okkur listaverk Samúels Jónssonar. Það er langt síðan ég kom þangað síðast og ég var eiginlega búinn að gleyma því hversu stutt það er að fara þangað; ekki nema 25 kílómetrar frá Bíldudal. Þó má ekki láta vegalengdina blekkja sig því þótt leiðin sé stutt er hún leiðinleg yfirferðar og tímafrek.
Verkin hafa verið klössuð upp og það er af sem áður var; ljónin hafa tekið lit, komin með veiðihár og næsta sumar stendur til að þau fái vatn í munninn.

Við ókum fram hjá nýupptekinni gröf Hrings vígamanns, sem var fluttur í gifsi suður til Reykjavíkur fyrir helgi. Mér finnst það lýsa andleysi og doða sýslumannsembættisins á Patreksfirði að rannsaka þetta ekki sem óleysta morðgátu.

Ókum í bæinn í gær, degi á undan áætlun. Siggi Elí undirbýr sig fyrir skólasetningu, ég fyrir að mæta aftur í vinnu.

Við Sveinn fórum í bíó gær - mig langaði á þessa en Sveinn er með snákafóbíu þannig þessi varð fyrir valinu. Þetta er fín mynd, það má kannski lýsa henni sem greindarlegri útgáfu af Bad Boys. Þeir sem höfðu gaman af henni og framhaldinu ættu að forðast Miami Vice. Og öfugt.

Sunday, August 20, 2006

Börn náttúrunnar

Undirbúningur fyrir tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoni gekk vonum framar, enda kom á daginn að það var of gott til að vera satt. Mikil var gleði mín þegar ég kláraði tíu kílómetrana í fyrsta sinn - þar til daginn eftir þegar ég gat ekki stigið í vinstri fótinn. Tveimur dögum síðar án tilfinninnanlegs bata fór ég upp á heilsugæslustöð í leit að linun. Þar tók á móti mér læknanemi, sjálfsagt yngri en ég, og tjáði mér, eftir grunsamlega litlar rannsóknir, að líklega væri ég með sködduð liðbönd. Hann kenndi lélegum skóm um og sagði að líklega hefði ég bara verið að stappa á fótunum á mér á malbikinu. Af samhenginu réð ég að það er ekki hollt. Á alltént að taka því rólega á næstunni og fara í göngugreiningu við tækifæri.

Ég er í mánaðarlöngu fríi vestur á fjörðum og eðli málsins samkvæmt þokast fótaferðatími smám saman nær hádegi. Þrátt fyrir meðvirkni í kvöldvökum hefur Sigurður Elí tekið að sér að vera samviska mín í þessum efnum og kemur sængum og koddum úr seilingarfjarlægð, yfirleitt ekki síðar en klukkan tíu á morgnana. Ef það liggur vel á honum fæ ég að dorma til ellefu.

Þar sem við erum úti á landi lifum við nær eingöngu af landsins gæðum; tvær bleikjur, þorskur og ótaldir ufsar hafa safnast til feðra sinna fyrir tilstilli Sigga, sem breytist í mikla fiskætu ef hann hefur sjálfur dregið aflann að landi. Næst á dagskrá er að láta hann rækta eigin kartöflur.

Í fyrradag fórum við í berjamó. Sólskin og stafalogn (sjaldgæft föruneyti á þessum slóðum þar sem innlögnin stíar þeim yfirleitt í sundur). Týndum tæpan líter af krækiberjum í hvítt hvers-dags-ís-box. Helvítis frjókornaofnæmið setti strik í reikninginn með tilheyrandi hnerraköstum, sem byrjuðu strax við brúna bakvið hús og rénuðu ekki fyrr en við rafstöð . En það var þess virði fyrir skyr með berjum.

Friday, August 18, 2006

Patron of the arts

Fyrir dyrum stendur útgáfa nýrrar teiknimyndasögu um ofurhetjuna Vigdísi Finnbogadóttur, verndara listanna. Vigdís býður hverjum þeim birginn sem stendur í vegi fyrir framrás íslenskra lista og menningar, til dæmis dólgum sem slá byggingu tónlistarhúss á frest. Eins og allar ofurhetjur hefur hún hjálparhellu sér til halds og trausts - Jónas Ingimundarson, sem dáleiðir fjandmenn sína með undursamlegum píanóleik.
Væntanleg í Nexus.

Kuml

Margt er víst. Þar á meðal að í hvert skipti sem fornleifafræðingar ramba á gröf frá þjóðveldisöld fletta fréttamenn upp í Íslendingasögum og finna þar lýsingar sem renna stoðum undir að þarna hljóti að liggja frægur kappi. Til dæmis að viðkomandi hafi verið grafinn á stóru túni í grennd við sjó. Stemmi ritheimildirnar ekki hafa sem betur fer sögur af ennþá fræknari köppum lifað í munnlegri varðveislu í héraðinu öldum saman. Af hverju var ekki hægt að jarða þetta fólk með skilríkjum?