Monday, November 24, 2008

Hryggleysingjar

Settist niður fyrir framan sjónvarpið í og ætlaði að horfa á Líf með köldu blóði. Þátturinn í kvöld bar nafn með rentu; óvenju ófrýnileg skriðdýr sem þeir grófu upp í þetta sinn og sátu fyrir svörum.

Örstutt

Borgarafundurinn var að byrja. Gunnar Sigurðsson fundarstjóri tók sér korter í að brýna fyrir fólki að vera gagnort og tala ekki of lengi.

Wednesday, November 19, 2008

Laglegar konur


Vefari Framsóknarflokksins er augljóslega snar í snúningum, strax búinn að uppfæra listann yfir nýja þingmenn Suðurkjördæmis. Laglegar konur þarna á Suðurlandi, en óneitanlega dálítið stórgerðar...

Friday, November 14, 2008

Spjöld sögunnar

Á mánudag kom sonur minn átta ára heim með hrúgu af myndaspjöldum með andlitum sem ég kannaðist við úr sjónvarpinu. „Hvað er þetta?" spurði ég. „Hagfræðingaspjöld," svaraði hann. Við skiptumst á þeim í skólanum." „Svona eins og körfuboltaspjöldum?" „Það var í gamla daga. Nú eru hagfræðingar málið. Sjáðu, ég á einn Vilhjálm Bjarnason, Lilju Mósesdóttur og Ágúst Valfells. Ef ég eignast Ólaf Ísleifsson eða Yngva Örn Kristinsson get ég skipt þeim öllum fyrir Gylfa Magnússon eða Jón Daníelsson."

„Jahá. Og hver er vinsælastur?" spurði ég. „Ja, ég held eiginlega mest upp á Jón Daníels." „Af hverju?" „Mér bara finnst það sannfærandi röksemdarfærsla að ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn neyðir Ísland til samninga um IceSave-reikningana á forsendum Breta og Hollendinga, sé það í raun ávísun á þjóðargjaldþrot Íslendinga." Hann hafði nokkuð til síns máls. „Og halda flestir upp á Jón Daníelsson eins og þú?," hélt ég áfram. „Nei, flestir í mínum bekk halda upp á annaðhvort Þorvald Gylfason eða Gylfa Zoëga en margir í 3M halda með Lilju Mósesdóttur. Og ég veit um einn strák í 3E sem er að safna hári eins og Þórólfur Matthíasson."

„Edda Rós Karlsdóttir, færðu mikið fyrir hana?" „Nei, þú færð voða lítið fyrir hagfræðinga í greiningardeild. Ef þú ætlar að fá eitthvað fyrir Eddu Rós verðurðu líka að eiga Ingólf Bender eða Ásgeir Jónsson, því fyrir þrjá greiningardeildarhagfræðinga fær maður einn háskólahagfræðing." „En ég hefði haldið að hagfræðingar sem hafa tekið þátt í atvinnurekstri væru verðmætari en hinir," sagði ég. „Ekki eftir hrunið," svaraði sá litli. „Sjáðu bara Tryggva Þór Herbertsson."

Strákurinn hélt áfram að fræða mig um skiptimarkaðinn: „Sko, fyrir tvo prófessora við íslenskan háskóla - eða fjóra lektora - er hægt að fá einn íslenskan hagfræðing við útlenskan háskóla. Ég á til dæmis einn Jón Steinsson og í gær fékk vinur minn Gauta B. Eggertsson." „Og eru bara hagfræðingar í spilinu?" spurði ég. „Nja, Guðmundur Jónsson, prófessor í hagsögu, er gjaldgengur í flestum hópum og sumir fást til að taka við Hannesi Hólmsteini og Stefáni Ólafssyni, þótt þeir tilheyri faktískt félagsvísindadeild." Hann skellti bara upp úr þegar ég spurði út í Eirík Bergmann.

„En hvað um þennan," spurði ég og tók upp eitt spjaldið. „Hann hlýtur að vera dálítið dýrmætur, hann er jú bæði hagfræðingur og forsætisráðherra. „Nei," svaraði sá stutti íbygginn. „Geir er verðlaus."

Tuesday, November 11, 2008

Skynsamir menn


Sérfræðingar segja aðeins tvö dæmi um að þingmenn hafi sagt af sér vegna "mistaka". Það er ekki úr vegi að rifja upp þessa grein, sem birtist í Fréttablaðinu 25. apríl 2007.

Sunday, November 02, 2008

Eftir atvikum

Sem betur fer þurfum við ekki að halda sönsum til að líkaminn sinni grunnskyldum sínum; hjartað heldur áfram að slá og lungun að draga andann jafnvel þótt við missum meðvitund. Þá ríður hins vegar á að skrúfa ekki fyrir súrefnið.

Jú, ástandið er slæmt - en ekki endilega jafn slæmt og það sýnist. Sjúklingurinn hefur vissulega orðið fyrir nokkuð svæsinni eitrun, sem helgast aðallega af óreglusömu líferni undanfarin ár. Hann er ungur og hvatvís. Af stráksskap gelgjuáranna innbyrti hann talsvert magn af bragðgóðri ólyfjan, sem í stað þess að brotna niður í líkamanum og hverfa í gegnum svitaholur, safnaðist upp í innvortis kaunum.

Utanaðkomandi þrýstingur virðist hafa orðið til þess að graftarkýlið sprakk. Eitrið vellur nú úr því og líkaminn keppist við að hreinsa það úr kerfinu. Því fylgja jafnan einkenni á borð við ákafan sviða, niðurgang og sótthita, sem þegar verst lætur getur valdið tímabundnu óráði. Við slíkar aðstæður er brýnt að koma í veg fyrir að sjúklingurinn rasi um ráð fram og kasti allri fyrirhyggju fyrir róða; það myndi bæta gráu ofan á svart.

Sóttin getur vissulega enn unnið talsvert tjón áður en hún gengur niður. Því er fyrir mestu að grípa til ráðstafana til að lágmarka skaðann og koma í veg fyrir að sjúklingurinn bíði varanleg örkuml. Mikilvægt er að hinn kranki liggi fyrir meðan hann er hvað veikastur og safni kröftum. Hann verður að öllum líkindum nokkuð rýrari þegar hann kemst aftur á lappir og talsvert máttfarinn til að byrja með. Það vinnur hins vegar með honum að hann er ungur að árum, var hraustur fyrir og vel á sig kominn. Með viðeigandi endurhæfingu og réttu hugarfari hefur hann því alla burði til að endurheimta fyrri styrk að fullu og verður jafnvel heilbrigðari en áður.

Gerum þó ekkki lítið úr alvöru málsins. Þótt ágætar líkur séu á að sjúklingnum batni steðjar að honum ein alvarleg hætta sem gæti riðið honum að fullu: Kreddufast sjúkralið af gamla skólanum, sem tók hvorki mark á sjúkdómseinkennunum né brást við þegar ljóst var hvert stefndi, og heldur fast í þá bábilju að blóðtaka sé líklegust til árangurs.

Spaklegast væri að skipta út gamla sjúkraliðinu sem fyrst. Áður en það teygir sig í arsenikið.

Birtist í Fréttablaðinu 31. október.