Tuesday, September 30, 2008

Krísufundir

Hef rekist á nokkra vini og kunningja undanfarna sem hafa átt það sammerkt að vera á leið á einhvers konar krísufund. Í dag hitti ég til dæmis vinkonu mína sem er í stjórn hjá göfugum hjálparsamtökum. Bakhjarlarnir voru Glitnir, Stoðir og Baugur.

Wednesday, September 24, 2008

Æi

Það er ekki langt síðan Egill Helgason kvartaði undan því - skiljanlega - að vera sagður með sama listasmekk og Hitler og Jónas frá Hriflu, vegna þess að hann fílar ekki Tracy Erms. En þeir, sem líst ekkert á styttu af Tómasi Guðmundssyni, minna auðvitað dálítið á Rauðu khmeranna.

Monday, September 22, 2008

Haustlægð

Undanfarið hefur sótt að mér einhver drungi. Að gömlum sið kenndi ég veðrinu um en í gær fór að leita á mig grunur um að kannski væri ástæðan önnur. Kíkjum á litla samantekt á nokkrum fyrirsögnum sem birtust á síðum dagblaðanna í liðinni viku.

Fös: Gjaldþrot blasir við ferðaskrifstofunni XL og Atlas selt. XL Leisure gjaldþrota. Enn tapar Eimskip. Olíuverð skekkir vöruskiptatölur. Ný stefnumótun í peningamálum má ekki bíða. Vextir áfram í hæstu hæðum. Vilja ekki krónuna. Kynbundinn launamunur hefur aukist.

Lau/sun/mán: Stórt og mikið áfall. Tími aðgerða í gjaldmiðilsmálum. Kreppan klýfur hjónabönd. Skuldsett börn fella foreldra. Heimatilbúinn efnahagsvandi. Virði Eimskips tíund af skuldum. Varar við nýrri heimskreppu. Dagvöruverslun minnkar. KPMG átaldi fegrað bókhald. Búast má við mótvindi áfram. Kjörin hafa versnað. Kaupþingsmenn á apafarrými. Brostinn draumur. Grafalvarlegt að villa um fyrir fjárfestum.

Þri: Versti dagur frá 2001. Gengi Decode í nýrri metlægð. Alvarleg staða Eimskips. Markaðsdýfa um heim allan. Fjárfestingarbönkum lokað. Fær flugið í hausinn. Styrking dollarans étur upp lækkunina. Engin viðskipti – hátt álag. Ríkissjóður rekinn með tapi. Uppnám og óvissa á fjármálamörkuðum. Skellir á Wall Street eru skellir hér. Rekstur Atlanta seldur á 0 krónur. Harm­saga XL Leisure. Neikvæð í fyrsta sinn í fjögur ár. Miklar ábyrgðir og háar skuldir í brennidepli. Fallið um 82 prósent.

Mið: Stöðugt fleiri leita aðstoðar vegna skulda. Krónan aldrei verið veikari. Nýsir á barmi gjaldþrots. Fótunum kippt undan manni. Skuldatryggingarálag eykst vegna óróleika. Ástandið vestra jafnast á við kreppuna miklu. Úlfakreppan harðnar enn. Nánast endalaus hrakfallasaga. Stór hluti eiginfjár í húfi. Veröldin var svolítið önnur en í dag.

Fim: Krónan kolfellur. Hætta á hruni. Fjárfestar hafa lítið traust á krónunni. Fjárfestar forðast krónuna. Hætta á afskráningu. Hriktir í hagkerfum. Forstjóri Glitnis aldrei átt fleiri andvökunætur. Fjárfestingabankar riðuðu til falls í gær. Aukið álag í niðursveiflu. Enginn hagvöxtur. Slæm lausafjárstaða gerir mörgum erfitt fyrir. Brotna niður í atvinnuleysi. Botninum hvergi nærri náð.

Þetta nægir mér í bili. Vill einhver hnippa í mig þegar þetta er gengið yfir?

Birtist í Fréttablaðinu 19. september.

Friday, September 19, 2008

Ólga

„Ólgan innan Frjálslynda flokksins á sér lítil takmörk,“ stendur í Sandkorni DV í dag. Það er ekki rétt. Ólga sem er bundin við Frjálslynda flokkinn er þvert á móti talsvert takmörkuð.

Monday, September 15, 2008

Setning dagsins

Ég er á báðum áttum, það sem af er degi koma tvær til greina:

"Hommataktarnir voru dálítið tilbúnir, en ættu að geta orðið Víði eðlilegri við meiri æfingu."
Jón Viðar Jónsson um frammistöðu Víðis Guðmundssonar í leikdómi um leikritið Fýsn, í DV í dag.

"Þetta er staður í milliflokki. Við getum staðsett hann til hliðar við Pítuna og American Style."
Bloggarinn Jens Guð í umsögn um Icelandic Fish&Chips.

Tilviljun?

Hér er sagt frá því að brotist var inn heima hjá Guðmundi Gunnarssyni, formanni Rafiðnaðarsambands Íslands. Það er ekki gott. Í gær var sagt frá því í fréttum að brotist hafi verið inn hjá Gissuri Péturssyni, forstjóra Vinnumálastofnunar.

Hér er gæti verið á ferð raðinnbrjótsþjófur sem er uppsigað við verkalýðshreyfinguna af einhverjum ástæðum. Kannski rafvirki sem lenti nýlega í fjöldauppsögnum?

Í litlum bæ að nafni tilgerð

Lýsir það ekki smá hubris, að nota orð á borð við hubris?

Wednesday, September 10, 2008

CSI: Taggart

Svona væri Taggart ef handritshöfundar CSI fengju ráðið.

Tuesday, September 09, 2008

Tvær aðgerðaáætlanir

Mjór er mikils vísir

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, spyr hvernig hægt sé að fela 120 þúsund krónur í endaþarminum. Ég veit það ekki, en að óreyndu get ég ekki ímyndað mér að það sé jafn erfitt og að fara 450 milljón krónum fram úr áætlunum við kaup á ferju.

Ég fer þangað út af húmornum

Pípulagningameistari úr Þorlákshöfn skrifar grein í Morgunblaðið í dag um "brúnaþunga og húmorslausa" kvenþingmenn, sem séu á móti nektardansstöðum. Ekki ætla ég að fjölyrða um kímnigáfu þeirra sem eru á móti nektardansstöðum, enda sé ég ekki hvað það hún kemur málinu við. Það er eins og píparinn sjái fyrir sér svipaða stemningu á nektarstöðum og í gömlu Benny Hill þáttunum, þar sem fáklæddar konur hlupu gjarnan um á hraðspóli undir blússandi saxófónstefi.

Aðdáandi

Í að minnsta kosti tveimur dagblöðum í dag er sagt frá því að "aðdáandi" Oasis hafi ruðst upp á svið á tónleikum sveitarinnar, hrint Noel Gallagher og reynt að hjóla í Liam áður en öryggisverðir höfðu hendur í hári hans. Er þessi hegðun ekki vísbending um að þrjóturinn sé einmitt alls ekki aðdáandi, heldur þvert á móti nokkuð í nöp við Oasis? Hér hefði orðið tónleikagestur komið að góðum notum.

Monday, September 08, 2008

Áhrif

Ég sé dálítið eftir því að hafa ekki notað tækifærið og hringt mig inn veikan í nokkra daga. Óvinnufær vegna fráfalls biskupsins. Af umræðunni að dæma sýnist mér að fullt mark hefði verið tekið á því.

Nú keppast menn við að lýsa yfir að fáir ef nokkrir hafi haft jafn mikil áhrif á Ísland á 20. öld og biskupinn sálugi. Ekki efast ég um það. En það er óneitanlega söknuður á skipulegri úttekt á því í hverju þau áhrif fólust, í staðinn fyrir innihaldslaust skrum annars hvers bloggara um "tærar textaþýðingar úr sænsku" og að Sigurbjörn hafi verið "byskupinn".

Thursday, September 04, 2008

Framtíð dagblaðaútgáfu

Ég er á báðum áttum; hvorum sérfræðingnum á ég að trúa, Birgi Guðmundssyni eða Birgi Guðmundssyni?

The Gloves Are Off

Mogginnn reynir í dag að bera í bætifláka fyrir staglið sem rakið er hér að neðan. Arnar Eggert kastar svo hanskanum í umsögn um plötu David Byrne og Brian Eno.

Gott og vel. Í hvert sinn sem sem ég kem auga á orðið dægilegt í skrifum Morgunblaðsins ætla ég að bæta um betur með því að lauma orðinu sprúðlandi að á síðum Fréttablaðsins.

Þetta er rétt að byrja... og gæti orðið ljótt.

Monday, September 01, 2008

Giska dægilegt

Áhugafólk um tónlist hér á landi stendur óneitanlega í þakkarskuld við poppskríbentana Árna Matthíasson og Arnar Eggert Thoroddsen á Morgunblaðinu. Þeir eru fróðir og víðsýnir en umfram allt forvitnir um hvað er að gerast í tónlistarheiminum hverju sinni og beina spjótum sínum í allar áttir, óháð straumum og stefnum. Lesendur Morgunblaðsins njóta góðs af því.

Árni finnst mér reyndar skrifa mun betri texta en Arnar en báðir eru þó haldnir sama plagsið, það er klifun á orðinu dægilegt. Orðið finn ég ekki í íslenskri orðabók (vefútgáfu, það er að segja) en líklega er það dregið beint úr dönsku. Reyndar notar Árni iðulega orðið dægilegt; Arnar hefur hins vegar dregið af því forskeytið "dægi" og skrifar oft og tíðum að eitthvað sé "dægigott", "dægiljúft", "dægiskemmtilegt" og þar fram eftir götunum.

Nú er auðvitað gott og blessað að menn grípi til óalgengra orða til hressa upp á textann, en það er einmitt málið - þetta eru óvenjuleg orð sem maður heggur eftir. Mér fannst ég farinn að taka eftir einhverju dægilegu eða dægigóðu oftar en góðu hófu gegndi á síðum Moggans. Í bríaríi sló ég því upp "dægi" í orðhlutaleit á greinasafni Morgunblaðsins, frá aldamótunum 2000. Upp komu 115 dæmi, langflest í greinum eftir Arnar Eggert - um 40 - og Árna, eða um 20 í viðbót. Í þriðja sæti dægilegheitanna sýndist mér vera Skarphéðinn Guðmundsson, sem skrifaði jöfnum höndum um popp og kvikmyndir þegar hann vann á Mogganum. Auk þess voru nokkrar ómerktar greinar um tónlist, sem má álykta að séu eftir einhvern þessara þremenninga, allt í allt ca. 70-80 dæmi af 115.

Nú, ef eitthvað er ekki dægiljúft, dægigott eða dægiskemmtilegt í huga Arnars Eggerts er hann gjarn á að lýsa því sem giska góðu, giska ljúfu eða giska skemmtilegu. Ég fann í fljótu bragði tíu dæmi og nennti satt best að segja ekki að leita að fleirum.

En alla vega. Hér með er þeirri vinsamlegu bón komið á framfæri, við þessa annars öndvegisblaðamenn, að þeir dragi aðeins úr dægilegheitunum í skrifum sínum hér eftir. Það getur verið giska hvimleitt að lesa til lengdar.

Ef einhver heldur að ég sé að ýkja er best að birta heila klabbið:

DÆGIGÓÐUR ARNAR EGGERT:
Dægigott rokk, hvorki meira né minna.“ Um plötu Counting Crows.

„Því hvað sem lagasmíðunum viðkemur er dægigott að hlýða á þessa færu og þéttu hljóðfæraleikara spinna sinn galdur“ Um plötu Stuðmanna.

„Enginn asi var í kringum plötugerðina, sem hagaði sér því rétt eins og dægiljúft saumaklúbbskvöld.“ Um nýja plötu Geirfuglanna.

„Hann syngur sig með glæsibrag í gegnum ljúft, rafskotið og dægimelódískt popplag, „Divine““. Um Sebastien Tellier.

„Villi spyr því næst blaðamann hvernig honum hugnist platan og ég sannfæri hann óðar um það að þetta sé allt hið besta mál, plata sé dægiljúf og búi yfir ríkum, notalegum og mjúkum hljómi.“ Um plötu Villa Valla.

„Þetta var árið 1969 en þá var nafni hans Slim búinn að koma sér dægivel fyrir í blúsborginni.“ Um blúsarann Magic Slim.

„Biggi kemur svo askvaðandi stuttu síðar og dægiljúft kaffispjall hefst“. Viðtal við Bigga Veiru.

„Undir spjallinu hlýddum við á hljómsveit frá San Fransisco sem ég kann ekki að nefna, en tónlistin var dægigóð.“ Viðtal við Benna Hemm Hemm.

„Tónlistin sem um ræðir er dægiljúft amerískt popp úr fjaðurvigtinni...“ Um plötu Stebba og Eyfa.

„Lag Baggalúts og Valgeirs Guðjónssonar er líklega frískasta lagið hér; dægiskemmtilegt þó að þolinmæði mín gagnvart heimabrugguðum húmor Baggalúts sé takmörkuð.“ Um plötuna 100 % sumar.

Dægilegur Dylan“. Fyrirsögn á grein um Bob Dylan.

Dægiljúf kassagítarplata, sem minnir á Harvest og Harvest Moon.“ Um plötuna Prairie Wind eftir Neil Young.

„Fyrsta platan, Parachutes, kom út 2000 og innihélt dægiljúf popplög, ekki slæm en ekkert sérstök heldur.“ Um Coldplay.

„En eftir því sem staldrað er lengur við fer heimilislegur og dægiljúfur bragur að gera vart við sig.“ Um Plötu Helga Björnssonar.

„Stemningin dægileg enda lítið annað hægt hér á Hróarskeldu“

„Björn Valur semur skátaleg og einföld lög, svona dægiljúft, skandinavískt ryksugurokk...“ Um plötu Roðlauss og beinlauss.

„Þetta er dægilegasta hlustun....“ um plötu The Hives.

„Í öllum tilvikum er um að ræða dægiljúfa píanótónlist, list sem Árni og Haukur hafa verið að fínpússa í gegnum árin.“ Um plötu Hauks Heiðars Ingólfssonar og Árna Scheving.

„Annars var stemningin dægilega afslöppuð - a.m.k. framan af.“ Um tónleika Sebadoh.

„Hin undarlega nefnda sveit Pósthúsið í Tuva býr til tónlist sem dansar í takt við þá nafngift, skemmtilega skökk og skæld alþýðutónlist, rokkskotin og dægilega framreidd með hressandi glúrnum textum...“ Um plötu Pósthússins í Tuva.

„Arnar Eggert Thoroddsen ræddi við Friðjón Jóhannsson um varðveislu íslenskrar alþýðutónlistar og hina dægilegu dansmúsík.“ Um plötu Danshljómsveitar Friðjóns Jóhannsonar.

„Rennslið er bara eitthvað svo dægiljúft.“ Um plötu Viðars Jónssonar.

„Jöfn plata og dægileg, besta stofupoppið á markaðnum í dag!“ Um plötu Supergrass.

„Þeir sem hafa umfaðmað veröld Cave af einhverri alvöru sogast þó venjulega inn og líkar það bara dægivel.“ Um Nick Cave.

„Okkar maður syngur aðalrödd í tveimur lögum og kemst ágætlega frá því. Söngurinn er að vísu nokkuð einkennislaus en á móti venst hann dægivel.“ Um söng Vignis Snæs Vigfússonar í Írafári.

„Grand rokk er ekki stór staður og var hann því dægilega troðinn fólki...“ Um tónleika Stereolab.

„Diskurinn rennur þó dægiljúflega og áreynslulaust í gegn...“ Um plötu South River Band.

„Hér er ekki snöggan blett að finna; frá fyrstu sekúndu til þeirrar síðustu svífa dægiljúfir tónar um og eins og með allar góðar sveimplötur...“ Um plötu Röyksopp.

„Fölskva- og rembingsleysið skilar sér því í dægilegustu afurð sem höfundur getur vel verið sáttur við.“ Um plötu Rúnars Júlíussonar.

„Kostur þessa disks er að hann er dægiljúfur og líður þægilega í gegn.“ Um safndiskinn Skref fyrir skref.

„Nýverið kom þar út skífan Cupid Cactus en þar ráða dægiljúfar melódíur ríkjum sem aldrei fyrr...“ Um hljómsveitina Fuck.

„Og þrátt fyrir að frumleikinn sé ekkert allt of mikill hér þá nær 701 að búa til dægiljúfa og þétta stemmningu í mörgum laganna.“ Um plötu listamannsins 701.

„ÉG bið ykkur fyrirfram forláts því minnið á alveg örugglega eftir að svíkja mig í einhverjum tilfellum hér á eftir og það er líkast til affarasælast að ímynda sér þetta sem dægiljúft minningahjal yfir rjúkandi kaffi fremur en niðurnegldan staðreyndabálk.“ Yfirlit yfir tónlistarárið 2000.

„[]T]ónlist Papa Roach er hressandi blanda af rokki, pönki og hip-hoppi, með dægigerðri slettu af melódíum.“Um Papa Roach (hér er hugsanlega um innsláttarvillu blaðamanns að ræða).

„Einnig búa lög eins og "Englar" og "Þrá" yfir dægigóðum poppkrafti.“ Um plötu Sóldaggar.

„Það mætti segja að platan sé vel heppnuð sem dægiljúft og áhlýðanlegt verk en því miður ekki eins vel sem rífandi stuðplata.“ Um plötu Jagúar.

GISKA

„Guðmundur Óskar Guðmundsson, einn meðlima sveitarinnar og segist eins og aðrir giska undrandi á vinsældum lagsins“. Í viðtali við Hjaltalín.

„Þá heimsóttu finnskir iðkendur formsins, Finntroll, landann á dögunum en stefnan er giska útbreidd...“ Um svissneska þjóðlagaþungarokkssveit.

„Hljómsveitin Hjaltalín er níu manna sveit með giska óvenjulega hljóðfæraskipan.“ Um Hjaltalín.

„Heartland er giska vel heppnuð...“ um hljómsveitina Runrig.

„Áðurnefnt titillag er dável heppnað og sömuleiðis er"Almost Running Out Of Time"
giska pottþétt ballaða.“ Um plötu hljómsveitarinnar Myst,

„Ferill Trentemøllers er giska langur en hann hóf ferilinn í rokksveitum...“ Um Anders Trentmöller.

„Eðlilega myndast einhvern tíma þörf hjá þaulreyndum kórum að láta eftir sig einhverja heimild og er útgáfa á kóraplötum giska umfangsmikil.“ Um plötu Mosfellskórsins.

„Í tilfelli Hafdísar hefur tímanum greinilega verið vel varið því að Dirty Paper Cup er fínasta frumraun og vel það, lágstemmt en um leið giska hugmyndaríkt verk.“ Um plötu Hafdísar Huldar.

„Síðasta auglýsta atriðið var Hjörvar. Hjörvar Hjörleifsson á að baki giska langan feril. Um Iceland Airwaves.“

„Tónlistin er annars dramatískt rokk, með giska miklum áhrifum frá hljóðgervlapoppi níunda áratugarins.“ Um hljómsveitina Killers.

„Helgi setur sinn mjög svo persónulega stimpil á lögin og gefur þeim þannig giska einkennilegan blæ.“ Um plötu Helga Björns.

DÆGILEGUR ÁRNI MATTHÍASSON:
„Ný plata Micah P. Hinson verður eflaust víða á topplistum þegar poppárið verður gert upp enda er að finna á henni svo dægilega blöndu af trega og sorg að varla verður betur gert.“ Um plötu Micah P. Hinson

„Á meðan rokksveitin dægilega Decemberists er í frí...“ Um forsöngvara Decemberists.

„Tónlist Fleet Foxes er einkar dægileg...“ Um Fleet Foxes.

„Að þessu sögðu þá eru bækurnar um Brunetti dægilegar...“ Um bókina Girl of his dreams.

Dægilegt danspopp“. Fyrirsögn í grein um Hot Chip.

„Það er líka reggíkeimur í stöku lögum á Lundúnahluta "Theology", en allajafna er tónlistin þó dægilegt popp.“ Um plötu Sinead O‘Connor.

„Söngkonan Leslie Feist söðlaði um á annarri breiðskífu sinni, sneri baki við rokki og pönki og sté fram sem framúrskarandi fjölhæfur listamaður í dægilegu framúrstefnulegu poppi...“ Um söngkonuna Leslie Feist.

„Kannski er maður búinn að kynnast Espinosa of vel, hann er ekki ýkja flókin persóna, eiginlega klisjusafn, þótt hann sé hinn dægilegasti náungi.“ Um bókina South Westerly Wind.

„Í dægilegri bjartri sögu dregur þannig skyndilegt ský fyrir sólu...“ Um bókina Fragile Things.

„Tarwater spilar einskonar síðrokk, ósungið og tilraunakennt á köflum, Isan hlýlega raftónlist þar sem aðallega er unnið með hliðræn hljóð og The Go Find dægilega kliðmjúka raftónlist.“ Um AIM-tónlistarhátíðina.

„Welch syngur einkar vel á plötunni og þó hún sé ekki beinlínis með fallega rödd er röddin dægileg og söngur tilfinningaríkur og hlýr.“ Um plötu Gillian Welch.

„Leyndarmálið mikla var þó aðeins varðveitt í munnlegri geymd í gegnum aldirnar og það var ekki fyrr en Rhonda Byrne, fráskilin miðalda móðir sem glímdi við þunglyndi rakst á bók frá 1910 sem hét því dægilega nafni Vísindin við að verða ríkur.“ Um bókina Leyndarmálið.

„Tónlistin sem Ray LaMontagne spilar er ekki flókin í sjálfu sér, grípandi jass og blússkotin popptónlist - einkar dægileg og áferðarfalleg.“ Um Ray LaMontagne.

„Þannig var því til að mynda farið með bandarísku rokksveitina Midlake sem byrjaði í sjóðandi fönki en tók síðan snarpa beygju í framúrstefnulegt dægilegt rokk í mýkri kantinum.“ Um hljómsveitina Midlake.

„Hljómsveitin með langa nafnið, MoFA, spilar "indí", tónlist sem þrífst við jaðar rokksins, dægileg og indæl...“ Um Músíktilraunir 2006.

„Ekki var einkalífið eins dægilegt...“ Um Rosanne Cash.

„Magnet var einkar dægilegur.“ Um Iceland-Airwaves 2004.

„Það fer einkar vel á að hafa dægilegar kvenraddir í gítarsúpu sem þessari.“ Um plötu Singapore Sling.